Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Útilistaverk og minnisvarðar

Askur Yggdrasils
Askur Yggdrasils eftir Erling Jónsson stendur fyrir utan Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Verkið er tákn lífsins tré og á trénu situr þrastarpar og hreiður. Þrastarparið bíður eftir því að eggin þeirra fimm sem liggja í hreiðrinu klekist út. Verkið er táknrænt fyrir heilbrigðisstofnunina þar sem líf hefst, líf endar og allir einstaklingar eru jafnir. Verkið var gjöf Iðnaðarmannafélags Suðurnesja til Heilbrigðisstofnunarinnar á 50 ára afmæli stofnunarinnar 2004. Það var gefið til minningar um iðnaðarmenn sem fallnir eru frá og sem áminningu um mikilvægi iðnaðarmanna í samfélaginu. Listamaðurinn Erlingur Jónsson fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar í listum og starfaði þar síðar sem listakennari.
Álög
Við innkomuna í Sandgerði frá Reykjanesbrautinni stendur verkið Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur. Verkið sýnir manneskju standa andspænis þremur plötum sem standa lóðréttar upp í loftið og mynda öldur. Verkið sýnir hve sjórinn er sterkur gagnvart manninum. Sjórinn í verkinu er gerður úr rústfríum plötum sem tákna að sjórinn er eilífur. Hins vegar er maðurinn í verkinu gerður úr pottstáli sem ryðgar og tákna að maðurinn er hverfull. Verkið var afhjúpað á Sjómannadaginn 1986 og var sett upp sem minnisvarði um sjómenn frá Sandgerði. Er þetta mjög áhrifaríkt verk og á kvöldin er það fallega upplýst þar sem það setur mikinn svip á umhverfið. Ef komið er á bíl er hægt er að leggja í lítið útskot við verkið og ganga upp að því. Vefsíða Steinunnar: www.steinunnth.com
Fjórir vindar
Á horni Heiðarbrautar og Garðbrautar stendur listaverkið Fjórir vindar eftir Helga Valdimarsson en verkið var gjöf listamannsins til sveitarfélagsins 2012. Skúlptúrinn er einskonar áttaviti sem saman stendur af fjórum kvenmanns höfðum sem hvert horfir í átt að höfuðáttunum fjórum. Hæsta höfuðið horfir í norður svo suður, austur og vestur. Listamaðurinn býr og starfar í Garðinum. Hann hefur gefið bænum nokkur verk sem sjá má víða í bænum. Má þar nefna Konu sjómannsins sem stendur fyrir utan Byggðasafnið á Garðskaga og Mangi á Mel sem stendur hjá Sjólyst. 
Geirfuglinn
Neðan við Valahnjúka stendur brons stytta af Geirfugli eftir bandaríska listamanninn Todd McGrain. Verkið var sett upp á Ljósanótt 2010 og er hluti af verkefninu Lost Bird Project sem listamaðurinn hélt út. Styttan af geirfuglinum er um 150 cm og sýnir geirfugl sem horfir í átt að Eldey þar sem síðustu tveir geirfuglarnir sem vitaða er um voru drepnir, 3. júní 1844. Geirfuglinn var algengur við Norður Atlantshafið á öldum áður. Hann var stór og ófleygur og því auðvelt að veiða hann sem og að var hann kjötmikill. Vegna ofveiði dó stofninn út. Verkið á að vekja athygli á umhverfisvernd og er minnisvarði um útdauða tegund. Bílastæði er í námunda við styttuna og hægt er að ganga alveg upp að verkinu um leið og gengið er um svæðið. https://www.visitreykjanes.is/is/stadur/valahnukur
Holskefla
Við Hljómahöllina (Stapann) stendur höggmyndin Holskefla eftir Sigurjón Ólafsson. Verkið var reist árið 1971 og samanstendur af fjórum bogalag formum sem tengjast stöplinum með fimmta forminu. Formin eru gerð úr
Hrafna-Flóki
Stytta af landnámsmanninum Hrafna-Flóka eftir Mark J. Ebbert stendur við Víkingaheima. Styttan er höggvin úr marmara og var gjöf Varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar í tilefni að hálfrar aldar afmæli lýðveldisins. Styttan var upphaflega vígð 1994 á sérstökum trjáræktardegi varnarliðsins fyrir framan gömlu flugstöðina á Keflavíkurvelli en var færð að Víkingaheimum árið 2010. Listamaðurinn Mark bjó á Íslandi um skeið ásamt konu sinni sem starfaði sem sjóliðsforingi hjá varnarliðinu.    Hrafna-Flóki Vilgerðarson kemur fyrir í Landnámu. Hann var norskur víkingur sem sigldi vestur í leit að nýju landi. Hann kom til Íslands áður en land byggðist ásamt nokkrum mönnum og þremur hröfnum sínum. Þeir stoppuðu um tíma en héldu aftur til Noregs.    Um Hrafna-Flóka má lesa nánar hér: https://is.wikipedia.org/wiki/Hrafna-Flóki_Vilgerðarson
Hvirfill
a. Við bryggjuna í Sangerði, við Austurgarð‚ stendur listaverkið Hvirfill eftir Jón Þórisson. Verkið var sett upp í tilefni af því að 100 ára voru liðin frá því vélbátaútgerð hófst í Sandgerði þegar, mb Gammur var gerður út frá Sandgerði, 1907. Efnt var til samkeppni um val á verki til þess að heiðra vélbátaútgerðina sem stunduð hefur verið í bænum. Þar var Hvirfill valinn og verkið afhjúpað árið 2007. Verkið er gert úr ryðfríu stáli og er hreyfanlegt í vindi.  https://timarit.is/page/5182660#page/n1/mode/2up
Íslands Hrafnistumenn
Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga. Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.   Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari. 
Minnismerki sjómanna
Minnismerki sjómanna stendur á túninu milli Hafnargötu og Ægisgötu. Verkið er eftir Ásmund Sveinsson og var það afhjúpað á sjómannadaginn 1978, til minningar um drukknaða og horfna sjómenn. Upphaflega stóð það fyrir ofan Holtaskóla en árið 2000 var það flutt á núverandi stað. Þar sem það stendur til móts við Keflavíkurkirkju með sjóinn í bakgrunni. Verkið er stórt og mikið geometrískt verk, eða 6 metrar á hæð. Sýnir það skipsstefni en í því er akkeri. Yfir akkerinu tróni björgunarhringur sem er tengdur við skipsstefnið sem strengjum. Akkerið hvílir á sjávaröldu sem tákna hendur hins almáttuga. Verkið var keypt að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, en Keflavíkurbær kom einnig að kostnaði. Minnismerkið eru á hellulagðri hækkun þar sem hægt að gang í kringum það og fá sér sæti á bekkjum sem eru við verkið. Einnig er margt áhugavert að skoða í næsta nágrenni. Á túninu eru fleiri verk eftir aðra listamenn og minjar frá Byggðasafninu. Strandleiðin byrjar þarna við sjóinn, en það er skemmtileg gönguleið í fallegu umhverfi með þó nokkur útilistaverk. Einnig er Duushús, sem hýsir Listasafn Reykjanesbæjar og Byggðasafn Reykjanesbæjar, þarna skammt frá.  Frekari upplýsingar má sjá hér neðar á síðunni. 
Minnismerki um Jón Þorkelsson
Minnisvarði um Jón Þorkelsson eftir Ríkharð Jónsson stendur við Innri-Njarðvíkurkirkju. Verkið er eitt af stærstu verkum Ríkharðs og var það afhjúpað í maí 1965. Verkið sýni Jón Þorkelsson sitjandi með bók í hönd og tvo börn sitja andspænis honum og horfa upp til hans.  Jón Thorkellius eins og hann var kallaður, fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Jón var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum.  Hann skildi einnig eftir sig mikinn sjóð sem nýttur var til að stofnun barnaskóla Álftanesi fyrir öll börn, einnig var fyrsti skólinn í Reykjavíkur styrktur með sjóðnum sem og að styrkir til skólahalds voru víða veittir.  Á sama stað er einnig að finna Minnismerki um Sveinbjörn Egilsson, fyrsta rektor Lærða skólans.
Ólafur Thors
Regnbogi
Fyrir framan flugstöðina stendur Regnboginn eftir Rúrí. Verkið setur mikinn svip á umhverfið þar sem regnboginn rís úr jörðinni í opnu umhverfi og teygir sig upp til himins. Verkið er unnið úr ryðfríum stálrörum og steindu gleri. Litir regnbogans eru myndaðir með 313 gulum, rauðum, grænum og bláum steindum glereiningum. Verkið rís upp úr hellulögn úr íslensku grágrýti og teygir sig 24 metra upp til himins.  Um verkið segir Rúrí: „Regnboginn er ófullgerður – Ég ímynda mér að einhvern tíma síðar meir, eftir svo sem eitt hundrað eða þúsund ár verði þráðurinn tekinn upp aftur þar sem frá var horfið og smíðinni haldið áfram. Verkið myndi teygja sig hærra og hærra upp í himininn, síðan niður á við aftur. Þar til að lokum að endinn snerti jörðu, og regnboginn væri fullgerður …“ Regnbogi var annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð, 1990.  Vefsíða Rúríar: https://www.ruri.is
Sagnatröllin
Sagnatröllin eru steinafígúrur sem finna má víða um Reykjanesbæ og setja þau mikinn svip á umhverfið. Höfundur verksins er Áki Gränz en hann var listamaður og fyrrverandi forstei bæjarstjórnar Njarðvíkur. Hugmynd Áka með sagnatröllunum var að halda til haga örnefnum og sögum tengt svæðinu. Meðal tröllanna má telja Tyrkjavörðutröllin, Grænáskirkju,Nástrandartröllin, Stapatröllin, Frey og Freyju og Sýslumanninn. Tröllin eru gerð úr grjóti frá Helguvík. Ekki eru þó öll tröllin, tröll því einnig eru þar álfar. Efst á Grænásbrekku stendur álfafjölskylda og eru þau minni en aðrar steinafígúrur. Fjölskyldan stendur á hólnum Grænás þar sem fólk trúði að þar væri álfakirkja, Grænáskirkja.   Hægt er að lesa meira fleiri frásagnir um álfa og huldufólk í Njarðvík hér: https://ferlir.is/raudklaeddi-madurinn-i-njardvikurasum/
Skynjun
Þoskastríðið við Básenda og Grindavík
Pláneturnar á Reykjanesi
Hluti af sýningu Hitaveitu Suðurnesja Orkuverið jörð sem var opnuð 2008 sýnir plánetur sólkerfisins. Eftirlíkingum af plánetum sólkerfisins hefur verið komið fyrir í hlutfallslega rétt fjarlægð frá sólinni. Ekki er hægt að komast að sólinni þar sem hún er staðsett inn á lokuðu svæði Reykjanesvirkjunar. Aðrar plánetur eru aðgengilegar og hægt að fylgjast vel með þegar keyrt er Nesveginn milli Reykjanesvirkjunnar og Hafna. 
Glerlistaverk um Tyrkjaránið
Glerlistaverk um Tyrkjaránið eftir Einar Lárusson stendur við Grindavíkurkirkju og var afhjúpað á sjómannadaginn 2001. Verkið vísar til þess þegar sjóræningjar frá Marokkó námu land við Grindavík í júní 1627. Sjóræningjarnir voru kallaðir Tyrkir af Íslendingum og þegar þeir komu til Grindavíkur rændu þeir þar fólki við Járngerðarstaði og verðmætum munum. Seinna sama sumar var annað þekkt Tyrkjarán við Ísland. Les má meira um Tyrkjaránið í Grindavík og afdrif Járngerðarstaðarfólksins hér: https://ferlir.is/tyrkjaranid-i-grindavik-1627-og-afdrif-jarngerdarstadafolksins-karl-smari-hreinsson-og-adam-nivhols/
Uppspretta
Vatnstankur í Vatnsholti. Sumarið 2013 var gömlum vatnstanki í eigu bæjarins breytt í útilistaverk með aðstoð listhóps að nafni Toyistar. Toyistasamtökin eru alþjóðlegur listhópur 28 félaga með varnarþing í Hollandi en þrír listamannanna voru íslenskir og bjuggu í Reykjanesbæ. Hópurinn vinnur við að endurbæta gömul mannvirki og breyta þeim í listaverk og hefur unnið við svipuð verkefni víða. Nauðsynlegt var að gera ráðstafanir vegna tanksins hvort eð var, þar sem hann er staðsettur á útivistasvæði í bænum og var orðinn til mikillar óprýði. Þarna voru slegnar tvær flugur í einu höggi, umhverfinu unnið gagn um leið og búinn var til einstakur listgripur með alþjóðlega tilvísun. Tankurinnvar afhjúpaður á Ljósanótt 2013 og er algjörlega einstakt verk í íslenskum veruleika en um leið hluti af alþjóðlegri keðju umhverfislistaverka.
Vonin
Vonin. Minnisvarði um drukknaða menn í Grindavík.   Eftir hörmulegt sjóslys í janúar 1952 þar sem Grindvíkingur GK 39 fórst með fimm manna áhöfn við Hópsnes í ofsaveðri, stofnaði Kvenfélag Grindavíkur Minningarsjóð drukknaðra manna frá Grindavík. Á 25 ára afmælis sjóðsins var verk eftir myndhöggvarann Ragnar Kjartansson valið sem minnisvarði og var það afhjúpað á Sjómannadaginn 1980.    Verkið stendur í Sjómannagarðinum við Mánagötu og sýnir sjómannsfjölskyldu sem horfir út á hafið í von um að fjölskyldufaðirinn komist heill í höfn. Á minnisvarðanum stendur ,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15"
Þotuhreiður
Norðan megin við flugstöðvarbygginguna stendur verkið Þotuhreiðrið eftir Magnús Tómasson í upplýstri tjörn. Verkið var sett upp 1990 og var annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verkið sýnir þotu brjótast úr stóru eggi líkt og fuglsungi. Eggið situr á hreiðri úr íslensku grjóti sem rís upp úr tjörninni sem umlykur hreiðrið. Verkið allt er um 9 m á hæð. Eggið sem er úr ryðfríu stáli, er 5,6 m hátt og 4,2 m á breidd og vegur á sjötta tonn. Listamaðurinn segir hugmyndina að Þotuhreiðrinu fyrst hafa kviknað fyrir mörgum árum þegar hann var að vinna seríu um sögu fuglsins. Hugmyndir sem kviknuðu í því verkefni þróuðust síðar og útkoman var Þotuhreiðrið.