Selatangar
Gömul verstöð miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars reru þar skip frá Skálholtsbiskupi. Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn þar. Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880. Allmiklir verbúðarústir eru þar og viða hefur verið hlaðið fyrir hraunhella sem vermenn höfðu til ýmissa nytja, má þar nefna Mölunarkór og Sögunarkór. Minjar þar eru friðlýstar. Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas. Mikill reki er við Selatanga. Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana. Þangað liggur ógreiðfær vegarslóði af Ísólfsskálavegi.
View
Básendar
Fornt úræði og verslunarstaður sunnan við Stafnes.
Einnig kallað Bátssandar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Básendar eyðilögðust mikið í ofsalegu sjávarflóði, aðfararnótt 9. janúar 1799. Flóðið hreif flest hús með sér, stór og smá. Fólk varð að flýja og sumt varð svo naumt fyrir að það varð að skríða upp um þekjuna til að komast út. Vitað er að ein kona drukknaði. Þetta var eitt mesta sjávarflóð sem um getur við strendur Íslands.
Hvernig á að komast þangað: Vegur liggur frá Sandgerði að Stafnesi og þar er merkt bílastæði. Gengið er frá bílastæðinu þangað til að sjást tóftir staðarins og gamall grjótgarður.
View
Hafnaberg
Hafnaberg eru há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.
Hafnaberg er mjög vinsælt til útivistar. Bílastæði og merkt gönguleið að Hafnabergi er um 4 km frá Höfnum. Við Hafnaberg má finna fjölskrúðugt fuglalíf og frábært útsýni yfir hafið. Mikilvægt þó er að fara gætilega þar sem brú bergsins er brotakennd.
Hafnaberg er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Geopark.
View
Krýsuvík
Fornt höfuðból fyrir sunnan Kleifarvatn.
Það lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Í upphafi stóð Krýsuvíkurbær allmiklu vestar upp af vík sem heitir nú Hælsvík en hefur ef til vill heitið Krýsuvík til forna. Bæinn tók af þegar Ögmundarhraun rann yfir mikið af gróðurlendi jarðarinnar. Hluti af rústum bæjarins sjást þó enn í Húshólma. Þangað er hægt að aka á fjórhjóladrifnum farartækjum og ganga að hluta. Jarðhitasvæði er mikið í Krýsuvíkurlandi við Seltún. Þar hefur verið borað eftir gufu og hefur verið um það rætt að virkja gufuaflið fyrir Hafnarfjörð eða önnur nærliggjandi byggðarlög. Árangurinn var lakari en vænst var og tilraunum því hætt um 1950. Drottningarhola sem var um 230 m djúp stíflaðist haustið 1999 og sprakk tíu dögum síðar. Við það myndaðist hveragígur um 30 m í þvermál. Brennisteinsnáma var þar um skeið og brennisteinninn fluttur til Hafnarfjarðar en þaðan til útlanda.
Staðsetning: Við þjóðveg 42. 1 km vestur af Grænavatni, sem er 3km í suð-vestur af Kleifarvatni
View
Geldingadalir
Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það best.
Heimild Ferlir.is
View
Norðurljósin
Yfirborð sólarinnar sendir í sífellu frá sér svokallaðan sólvind, en hann er straumur hlaðinna agna, aðallega róteinda og rafeinda. Segulsvið jarðar hrindir flestum þessum ögnum frá svo að þær streyma umhverfis hana eins og vatn um kjöl. Undantekning frá þessu er kringum segulpólana, norður og suður. Á svæðum kringum þessa póla sleppur lítill hluti þessara agna inn í segulsvið jarðar. Hlöðnu eindirnar sem fara inn í segulsvið jarðar hreyfast á miklum hraða eftir gormlaga brautum kringum segulsviðslínurnar milli segulskautanna. Þegar nær dregur pólunum rekast eindirnar á lofthjúpinn,oftast í milli 100 og 250 km hæð. Orkan í rafeindunum og róteindunum örvar sameindir og frumeindir í lofthjúpnum en þær senda aftur á móti frá sér orkuna sem sýnilegt ljós sem við köllum norðurljós Litirnir sem við sjáum oftast eru grænn og rauð-fjólublár, en þeir stafa frá örvuðu súrefni annars vegar og örvuðu köfnunarefni eða nitri hins vegarÁ Íslandi erum við svo heppin að vera í norðurljósakraganum að nóttu til við eðlileg skilyrði. Hægt er að sjá norðurljósin hvar sem er áÍslandi, svo fremi að norðurljósin séu yfir landinu og stjörnubjartur himinn. Best er að horfa á þau þar sem minnst gætir ljósmengunar frá bæjunum.Á Reykjanesi eru staðir sem er gott að horfa á norðurljósin. Á Miðnesheiðinni milli Sandgerðis og Reykjanesbæjar, á Hafnaveginum,á Grindavíkurveginum við Seltjörn og við Kleifarvatn og Krýsuvík. Gott er að finna skjólgóðan stað og vera í hlýjum fötum, því norðurljósin eru greinilegri á kaldari árstíðum.Til gamans má geta þess að um miðja 19. öld var prestur á Hallormsstað, Hjálmar Guðmundsson að nafni, sem þótti furðulegur m.a. af því að sagt var að hann legði í vana sinn að skoða stjörnur og ætti til að gleyma sér við það. Munnmæli herma, að eitt sinn hafi vinnumaður farið að leita hans að næturlagi, og fundið hann liggjandi upp í loft á hjarni. Prestur var þá að telja stjörnur, en fipaðist við talninguna og brást reiður við þessari truflun.
View
Brúin milli heimsálfa
Brú á Reykjanesi á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku.
Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) "gangi" á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.
Byggð hefur verið brú á milli "plötuskilanna" upp af Sandvík á Reykjanesi þar gefst kostur á að upplifa það að ganga á milli heimsálfa (jarðfræðilega séð) Fólki að kostnaðarlausu.
Hægt er að fá viðurkenningarskjal þess efnis að viðkomandi "hafi gengið á milli heimsálfa" gegn vægu gjaldi á upplýsingamiðstöð Reykjaness og gestastofu Reykjanes jarðvangs sem staðsett eru í Duushúsum í Reykjanesbæ.
View
Þorbjörn
Stakt móbergsfell (243 m.y.s) fyrir ofan og norðan við Grindavík.
Af því er mikið útsýn yfir mikinn hluta Reykjanessfjallgarðsins. Norðaustan í fellinu er mikil jarðhitamyndun og norður og norðaustur af því er allvíðáttumikið jarðhitasvæði. Fjallið er með mikinn sigdal á toppnum. Þorbjörn er myndaður á síðasta kuldaskeiði ísaldar, eins og flest önnur jföll á Reykjanesi.
Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé Grindvíkinga. Voru þeir síðast unnir með prettum að því er sagan segir.
Í heimsstyrjöldinni síðari hafði setuliðið bækistöð/varðstöð í sigdalnum og lögðu veg upp á fjallið. Sjást vel ummerki um byggingar setuliðsins frá þessum tíma. Auðvelt er að ganga á Þorbjörninn bæði að norðanverðu upp eftir misgenginu og að austanverðu þar sem gamli bílvegurinn liggur. Undir norðurhlíðum fjallsins hafa Grindvíkingar ræktað skóg og er svæðið tilvalið til útivistar.
View
Sveifluháls
Hraunbreiða fyrir vestan Krýsuvík suður af Núpshlíðarhálsi ( Vesturháls).
Vestasti hluti þeirrar hraunbreiðu, sem á uppdráttum er nefnt Ögmundarhraun er þó af öðrum toga spunnið, það nær vestur undir Ísólfsskála. Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg. Sunnan til í hrauninu er 2 hólmar sem standa upp úr og er annar nefndur Óbrynnishólmi en hinn, sá austari Húshólmi. Í þeim síðar nefnda eru bæjarrústir sem taldar eru vera með þeim elstu á landinu eða frá landnámi og mótar vel fyrir þeim eins og sést á loftmyndinni hér. Er talið að hér séu rústir af elstu kirkju á Íslandi.
View
Katlahraun
Katlahraun rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum og hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar, fallegar og óvenjulegar hraunmyndanir.
Staðsetning: Katlahraun er vestan Selatanga og liggur vegur fyrir fjórhjóladrifnabíla að Ketli og Selatöngum.
Katlahraun er áfangastaður (e. geosite) í Reykjanes Unesco Global Geopark.
View