Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Dýralíf

Hvalir á Reykjanesi
Hvalir eru algengir kringum Reykjanesskagann, allt frá Krýsuvíkurbergi að Vogastapa. Nóg æti er fyrir þá, sérstaklega á sumrin þar sem þeir elta ýmsar fisktegundir inn á Faxaflóa. Hrefna sést mjög mikið og höfrungategundin hnýðingur. Oft á sumrin koma hópar af hnúfubak. Sést hefur líka háhyrningur, langreyður og jafnvel steypireyður sem er stærsta dýr jarðarinnar.
Hraunsvík - Kleifarvatn - Fuglaskoðun
Hraunsvík - Kleifarvatn Hraunsvík Hraunsvík er innsta víkin á svæðinu og staðsett undir Festafjalli. Þar er fínn staður til að finna stuttnefjur að veiðum og aðra svartfugla. Fýlar og ritur verpa í klettaveggjunum. Krýsuvíkurberg Krýsuvíkurberg er langstærsta fuglabjarg á Reykjanesinu. Þangað er um 20 mínútna akstur í austur frá af Grindavík. Frá vegi niður að bílastæði er mjög lélegur malarvegur en gangan er ekki löng. Það tekur um 20-30 mínútur að ganga allt bjargið. Þarna eru um 21.000 ritur, 20.000 langvíur, 2.600 stuttnefjur, 8.700 álkur, nokkrir fýlar, toppskarfar, lundar, teistur, silfurmáfar, og ofan á klettabrúninni verpa snjótittlingar og sendlingar. Syllur eru ótraustar og aðgát skal höfð nærri bjargsbrún. Krýsuvík og Kleifarvatn Krýsuvík er hversvæði milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur sem geymir Grænavatn, Arnarvatn og Kleifarvatn. Þar eru verpandi vatnafuglar svo sem himbrimi, álftir, grágæsir, stokkendur, urtendur og nokkur pör toppanda. Þess á milli má á heiðum og grónu landi finna svipaða samsetningu varpfugla sem leita í ákveðin gróðurskilyrði: Heiðlóur, þúfutittlingar, stelkar, hrossagaukar, spóar, steindeplar, stöku jaðrakanar, sendlingar, lóuþrælar, kjóar, skúmar og óðinshanar. 
Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær - Fuglaskoðun
Vatnsleysuströnd - Reykjanesbær Vatnsleysuströnd nær frá Vogum að Hvassahrauni (Kúagerði) í austri og er um 15 km löng. Þetta er gróðurríkt svæði, ef tekið er mið af öllu Reykjanesinu, með nokkrar tjarnir og ferskvatn sem rennur undan hrauninu niður í fjöru. Aðalvegurinn er malbikaður en aðgengi að strönd er á flestum stöðum um einkalönd. Kríuvarp er við Stóru-Vatnsleysu, æðarfuglar verpa á stangli um svæðið, máfar verpa á  nokkrum stöðum og verpandi vaðfuglar eru algengir. Sjaldgæfari varpfuglar eru t.d. lómur og óðinshani. Að hausti má finna umferðarfugla svo sem rauðbrystinga, tildrur og sanderlur í ætisleit og hvíld í fjörum strandarinnar. Stakksfjörður nær frá Vatnsleysuströnd að Stakki norðan Helguvíkur. Kálfatjarnarkirkja Ef komið er úr austri af Reykjanesbraut inn á Vatnsleysuströndina má sjá Stóru-Vatnsleysu. Þar í nágrenninu má finna fiskeldi innan girðingar og út frá því rennur úrgangur niður í fjöru. Í úrganginn sækja máfar, endur og stöku vaðfuglar. Að hausti er sjórinn ríkur af dílaskarfi, æðarfuglum, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi. Úr Flekkuvík er fallegt útsýni og þar eru góðar hraunfjörur, en þangað er um 500 metra gangur frá vegi. Kálfatjarnarkirkja er í næsta nágrenni og þar er hægt að leggja bílnum og ganga niður að tjörn. Á tjörninni eru oft endur og vaðfuglar í köntum. Í landfyllingunni eru spörfuglar, svo sem steindeplar, þúfutittlingar og músarrindlar að vetri. Fjaran er rík af vaðfuglum, bæði í seti og grýttu þanginu. Tjarnir sem þessar eru góður staður til að sjá fáséðar endur svo sem skeiðendur, grafendur eða erlendar flækingsendur þar sem lítið er um yfirborðsferskvatn á þessum slóðum. Nokkrar tjarnir má sjá við veginn á Vatnsleysuströnd sem vert er að skoða á leið um svæðið. Fitjar er að finna á nokkrum stöðum á svæðinu. Lífríkar fitjar með margæsum, grágæsum og jafnvel heiðagæsum á fartíma sjást við fjöruna milli Álfasunds og Brunnastaðasunds, og verpandi lóm ásamt nokkrum andategundum má sjá á tjörninni austan Brunnastaða. Handan varnargarðs er hægt að finna litmerktar sanderlur á fartíma og töluvert hefur verið merkt af tjaldi á Vatnsleysuströndinni. Vogar Inni í Vogum er stór andapollur sem dregur að sér nokkrar tegundir anda, óðinshana og vaðfugla að sumri. Kringum tjörnina er vegur og göngustígur sem bíður upp á góð færi til ljósmyndunar. Handan tjarnarinnar er varnargarður og stór fjara. Í höfninni sjást teistur, hávellur og straumendur. Að sumri má sjá spörfugla grípa flugur á flugi í kringum grjótgarðinn. Þegar komið er inn í Voga, tekin fyrsta beygja til vinstri og keyrt í gegnum bæinn, endar maður á malarvegi. Malarvegurinn liggur að hliði Stofnfisks og hægt að komast þaðan niður að Vogaleirunni undir hömrum Vogastapa. Þar eru stórir hópar lóuþræla, heiðlóa, sandlóa, stelka, tjalda og annarra vaðfugla. Við útrennsli Stofnfisks er mikið um máfa og endur. Þorbjörn og Sólbrekkuskógur Litskrúðugur mosi og lyng er ríkjandi gróður á Reykjanesinu en lítið er um skóglendi. Skógræktarfélag Suðurnesja hefur staðið fyrir smávægilegum gróðursetningum innfluttra plöntutegunda. Þar má helst nefna Selskóg við rætur Þorbjarnar, Sólbrekkuskóg við Seltjörn og Háabjalla við Snorrastaðatjarnir. Helstu tegundir sem finnast í þessum lundum eru skógarþrestir, músarrindlar, þúfutittlingar, auðnutittlingar og glókollar. Í Sólbrekkuskógi er oft að finna smyril og rjúpur eru algengar við jaðrana. Erlendir flækingsfuglar frá Evrópu og Ameríku sem vanir eru skóglendi sækja í þetta skjól í von um fæði á fartíma. Gott er að gægjast á tjarnirnar og athuga með endur eða aðra vatnafugla. Reykjanesbær Njarðvíkurfitjar á flóði eru með betri fuglastöðum á Reykjanesi. Þar er best að ganga um allar tjarnirnar. Vaðfuglar og spörfuglar leynast í fitjunum og köntum tjarnanna. Stokkendur, urtendur, rauðhöfðar, máfar og vaðfuglar sem bíða eftir lækkandi sjávarstöðu sjást á tjörnunum. Ljóshöfði sem er amerískur flækingur sést reglulega með rauðhöfðum á tjörninni. Hafnir Njarðvíkur, Keflavíkur og Helguvíkur halda stóra hópa æðarfugla og sjófugla. Góðar líkur eru á að sjá æðarkónga, korpendur og kolendur í hópum æðarfugla. Skarfar, teistur og selir eru oft í góðu færi í höfnunum. Á klettum við vitann í Helguvík að sumri er hægt að sjá lunda og aðra sjófugla úti á hafi og verpandi ritur og fýla í klettunum.
Garður - Kalmanstjörn - Fuglaskoðun
Garður Á leið til Garðs frá Keflavík er gott að hafa augun opin fyrir snjótittlingum, rjúpum, smyrlum og ungum fálkum að vetri. Lítið er um fálkavörp á Reykjanesinu en ungir fálkar eru algengir í ætisleit að vetri. Sýkin í Garði eru með betri flækingastöðum á Íslandi. Margir sjaldgæfir flækingar hafa sést á þessum tjörnum. Ef vel er að gáð má finna grafendur, hávellur, skeiðendur, gargendur, gráhegra, ljóshöfða og fleiri sjaldgæfa íslenska og erlenda fugla. Grjótgarðurinn ofan tjarnanna er fæðukista fyrir spörfugla. Sportittlingar sjást reglulega við grjótgarðinn milli Garðs og Garðskagavita. Úti á sjó sjást flestir algengir sjófuglar. Sjaldséðari sjófuglar sjást af til svo sem hópar af skrofum að hausti, og með smá heppni má finna stormsvölur, ískjóa og gráskrofur.  Því er mikilvægt að horfa til beggja átta þegar gengið er frá Garði að Garðskagavita. Garðskagaviti Á þessum nyrsta odda Reykjanesskagans er glæsileg aðstaða til sjófugla- og hvalaskoðunar. Mikil umferð sjófugla er nálægt landi að vori og hausti. Umferðarfuglar á leið sinni til og frá varpstöðvum stoppa við á grasi og í fjörum oddans. Upprekið þang safnar hita og býr til fullkomnar aðstæður fyrir þangflugulirfur sem nýtast vaðfuglum og máfum til átu. Himbrimar, lómar og straumendur sjást úti á sjó nálægt landi í leit að fæðu. Aðgengi er gott fyrir bæði fólksbíla og rútur. Salerni er á staðnum og stigar eru niður í fjöru þó oft sé betra að standa ofan varnargarðs og kíkja ofan í fjörurnar og út á sjó. Vegurinn milli Garðskagavita og Sandgerðis er fullur af góðum fuglaskoðunarstöðum. Ásgarður er bær rétt sunnan Garðskagavita. Þar eru oft stórir hópar heiðlóa og inni á milli má stundum finna gulllóu, glitlóu eða jafnvel fitjatítu. Einkavegir eru á flestum stöðum niður að fjöru en gott er að ganga að tjörnum og niður að fjöru við golfvöll Hafurbjarnarstaða og við Nátthaga sem staðsettur er við stóra tjörn sem heldur fjölda anda, máfa og vaðfugla. Margar tjarnir og góðar fjörur eru á þessari leið milli Garðskagavita og Sandgerðis svo mælt er með því að ganga fjöruna. Sandgerði Sandgerðistjarnirnar við enda Garðvegar eru varpstaðir anda, spörfugla og vaðfugla að sumri. Þær eru góður baðstaður máfa og andfugla allt árið um kring. Stokkendur, skúfendur, urtendur og grágæsir sjást allt árið þegar vök er opin. Fuglaskoðunarhús er við tjörnina en ekki er mælt með því að nýta það þar sem það er óheppilega staðsett til fuglaskoðunar. Stuttur malarvegur er við minni tjörnina sem liggur niður að sjó bak við gamla fiskvinnslu. Þar er gott að leggja bíl og skoða vaðfugla og sjófugla. Þá er hægt að keyra að Sandgerðisleirunni sem er sunnar í bænum. Ræsispípur úr fiskverkunarhúsum liggja niður í fjöruna og laða að sér fjölmargar máfategundir, fýla, hávellur, stokkendur, skarfa og fjölda vaðfugla í góðu ljósmyndunarfæri. Algengir máfar á þessu svæði eru svartbakar, sílamáfar nema að vetri, silfurmáfar, hvítmáfar, bjartmáfar að vetri, hettumáfar og stöku stormmáfar. Sumar tegundir hafa fleiri en eitt litarafbrigði og dæmi um það eru fýlar og bjartmáfar. Gráleitir fýlar með dökkar fjaðrir eru kallaðir kolapiltar meðan bjartmáfar með svart í vængendum eru kallaðir kumlien bjartmáfar. Kumlien er vestræn undirtegund bjartmáfsins og eru hún frekar algeng á Íslandi miðað við annars staðar í Evrópu. Nokkrar máfategundir flækjast til Íslands ár hvert en dæmi um þær eru dvergmáfar, amerískir silfurmáfar, hringmáfar, ísmáfar, þernumáfar og rósamáfar. Þúsundir sanderla stoppa við þessar fjörur á leið til og frá varpstöðum að vori og hausti. Margar sanderlur hafa verið litmerktar á þessum slóðum svo fuglaskoðarar eru beðnir um að lesa á merkin og senda upplýsingar til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fleiri vaðfuglar eru tildrur, sendlingar, lóuþrælar, heiðlóur, tjaldar, sandlóur, stelkar, spóar, fjöruspóar, jaðrakanar og stöku lappajaðrakanar. Fjöruspóar eru mjög sjaldgæfir varpfuglar á Íslandi. Þekkt eru örfá vörp en ekkert þeirra er á Reykjanesinu. Fjöruspóar eru þrátt fyrir það algengir vetrarfuglar í kringum Sandgerði og maður getur nánast gengið að þeim vísum í grýtta þanginu neðan kjúklingabúsins við Sandgerðisleiru. Þekkingarsetur Suðurnesja er staðsett við Garðveg 1 og þar er hægt að finna salerni og aðstöðu til að snæða nesti fyrir lítinn pening. Þar eru þrjár sýningar, auk lifandi sjávardýra, sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af að skoða. Norðurkot Þegar haldið er áfram suður eftir Stafnesvegi frá Sandgerði í átt að Höfnum sjást nokkrar stórar tjarnir vestan vegar sem vert er að skoða. Við bæinn Norðurkot er mikið fuglalíf. Þar er stærsta æðarvarp Reykjanesskagans enda er það vaktað allan sólarhringinn af landeigendum gegn líklegum afræningjum. Bannað er að ganga um svæðið að sumri nema með leyfi eiganda. Fleiri fuglar nýta þessa vernd og góðu tjarnir. Þar má sjá stórt kríuvarp í góðu sílaári. Auk æðarfugla halda andfuglar til við tjarnirnar og verpa í köntum þeirra og á flóðinu sækja vaðfuglar í kantana. Sunnan Norðurkots er tjörn eða vík nefnd Fuglavík. Hún ber nafn með rentu þar sem mikið er um andfugla, vaðfugla og máfa. Hvalsnes Bílastæði eru næg við Hvalsneskirkju. Þaðan er hægt að ganga niður í litla vík sem oft er rík af öndum og vaðfuglum í fjöru. Með urtöndum er oft að finna ameríska rákönd. Sunnan við Hvalsnes er annað stærra nes kallað Stafnes þar sem finna má fallegan vita. Þar er hægt að horfa út á haf á fartíma eða að sumri að fylgjast með umferðarfuglum. Ósar og Hafnir Ósar og Ósabotnar er lífríkt svæði með setbotni sem heldur mikinn fjölda fugla. Mjög stórir hópar anda, vaðfugla og brúsa er að finna á svæðinu. Gott er að ganga frá  Ósabotni að Höfnum og skoða út á hafið. Fálkar og smyrlar í leit að bráð eru algeng sjón. Að vetri sjást vel himbrimar, lómar, skarfar og fiskiendur í ætisleit út af bryggjunni í Höfnum og auðvelt er að komast í gott færi við straumendur. Fjöruspóar spígspora um í þanginu að vetri. Fínt set ríkt af botndýralífi er aðgengilegt fyrir vaðfugla á fjörunni og greinileg skipting þangbelta sést vel í hraungrýttri þangfjörunni. Ungir hafernir hafa sést í hólmum í leit að æti. Skúmar og kjóar verpa í snöggu grasinu að sumri. Kalmanstjörn og Hafnaberg Bílastæði er að finna sunnan við fiskeldið á vegi 425. Þar er hægt að ganga meðfram girðingu niður að Kalmanstjörn. Þar safnast straumendur saman í hóp að vetri og þar hafa sést flækingar á borð við rákönd, brandönd, gráhegra, æðarkóng og sefgoða. Þegar ekið er lengra til suðurs er bílastæði með fuglakorti. Þaðan er um 20 mínútna ganga niður að Hafnabergi og gott er að hafa augun opin fyrir verpandi kjóum á leiðinni. Hafnaberg er sjófuglabjarg með verpandi fýlum, ritum, langvíum, stuttnefjum, álkum og stöku lunda (2006). Varp byrjar í lok maí og álega er um 30 dagar og ungar eru um 20 daga í hreiðri áður en þeir stökkva til sjávar í fylgd foreldra. Fín fugla- og hvalaskoðun er frá syllunum. Syllur eru ótraustar og aðgát skal höfð nærri bjargsbrún. 
Sandvík - Grindavík - Fuglaskoðun
Sandvík - Grindavík Stóra-Sandvík Stóra-Sandvík er flöt og falleg vík með stórum sandöldum og miklu lóni sem fuglar sækja mikið í. Erfitt getur reynst að komast í færi við fuglana, því er gott að vera með góðan sjónauka á fæti til að skoða þá. Skúfendur, stokkendur, rauðhöfðar, urtendur og álftir eru reglulegir gestir við lónið. Í gegnum tíðina hafa sést margir flækingar enda er lónið ein af fáum vatnsvinjum á þessu svæði. Malarvegurinn við lónið og upp á sandölduna er holóttur en ætti að vera fær flestum bílum. Ekki er mælt með því að keyra niður í víkina þar sem auðvelt er að festa bíl þar og flóðastaðan er fljót að breytast. Reykjanes – Eldey, Valahnjúkur og Karl Reykjanesið er ysta og vestasta nesið á Reykjanesskaga sem dregur nafn sitt af þessu nesi. Þar er líklega eina kríuvarpið í heiminum staðsett á hverasvæði. Í flestum tjörnum á svæðinu gætir sjávarfalla og einstök lífkerfi þrífast í þeim tjörnum. Vaðfuglar sækja í þessar tjarnir í leit að æti og skjóli. Frábærar aðstæður eru til sjófuglaskoðunar á svæðinu enda eru rík fiskimið á Reykjaneshryggnum nálægt landi. Hægt er að keyra að Reykjanesvita og niður að Valahnjúk. Þar er hægt að ganga upp að bjargsbrún og fylgjast með verpandi ritum og fýlum í klettaveggjunum. Rétt utar sést Karlinn standa í sjónum en þar verpa ritur, fýlar og stöku álkur. Þegar horft er út á hafið stendur Eldey tignarleg upp úr hafinu. Eldey er stærsta súlnabyggð á Íslandi með um 14-18.000 pör en aðrar varptegundir eru ritur, langvíur, stuttnefjur og fýlar. Víkur Þegar ekið er stuttan spöl frá Reykjanesvita í átt að Grindavík eftir malarvegi niður í Mölvík að gömlum niðurrifnum húsum á hægri hönd. Ef honum er fylgt út að enda og gengið niður að sjó má oft sjá stóra hópa æðarfugla. Í þeim leynast oft hrafnsendur, korpendur, kolendur og æðarkóngar. Arfadalsvík Affall fiskeldisins á Stað lokkar til sín marga máfa, andfugla og jafnvel vaðfugla sem sækja í næringarríkt setið. Nokkrar litlar víkur eru á svæðinu og í sumum þeirra safnast upprekið þang sem dregur til sín vaðfugla í fæðuleit. Arfadalsvík er langstærst þessara víka og er einstaklega lífrík. Gott skjól er í víkinni miðað við mikla og ríkjandi austlæga strauma. Fyrir vikið er botndýralíf mikið og fuglalíf endurspeglar það. Að vetri er hægt að ganga að 5-15 straumöndum vísum við gamla bryggju innst í víkinni. Himbrimar eru stutt frá landi í ætisleit, tugir og upp í hundruð stokk- og rauðhöfðaanda er að finna í sjávarpollum og tjörnum uppi í landi alla leið að Stórubót. Margir flækingar og þar af sumir sárasjaldgæfir hafa fundist í Arfadalsvík. Grindavík Fyrir flækingsfuglaskoðara er Grindavík frábær staður. Vel upplýstur bærinn á suð-vestanverðu landinu dregur að sér flækinga bæði frá Evrópu og Ameríku. Höfnin í Grindavík er líka mjög góður staður fyrir flækingsmáfa og aðra sjófugla. Himbrimar í vetrarbúningi svamla um í höfninni ásamt teistum og skörfum meðan máfar hafa setstað innst í höfninni. Nokkrir góðir fuglaskoðunarstaðir eru úti á Hópsnesi. Fjörupollar eru sunnan við Höfnina í Grindavík en austan við Hópsnes er þaraskógur við Þórkötlustaðabót sem dregur að sér endur, brúsa og sjófugla. 
Fuglalíf
Á Krýsuvíkurbergi og Hafnarbergi hreiðra um sig þúsundir sjófugla á hverju sumri. Þeir algengustu eru langvía, álka, stuttnefja, rita, lundi, teista, fýll og skarfur. Krýsuvíkurberg er 50 metra hár og um 57.000 pör hreiðra um sig á þessum klettum. Hæsti punktur Hafnarbergs er 43 metrar og er áætlað að fjöldi sjófugla þar séu um 6.000 pör. Fjórtán kílómetra suðvestur af nesinu er Eldey, ein stæðsta súlubyggð í heiminum. Súlan er stæðsti sjófugl í Norður Atlantshafinu og um 16.000 pör hreiðra um sig á eynni sem er einungis 0,03km² að flatarmáli og 77 metrar á hæð. Á milli meginlandsins og eyjarinnar má einnig sjá höfrunga og hvali. Skúmurinn er algeng sjón á sumrin, hann er hrææta sem hrifsar æti frá öðrum sjófuglum. Frá náttúrunnar hendi er skúmurinn ekki fær um að stinga sér til veiða. Aðrir algengir fuglar við ströndina eru mávar, eins og sílamávar, hvítmávar og silfurmávar. Krían er algengasti fuglinn á Reykjanesinu og er hann að mestu að finna í Kríuvörpum á Reykjanesoddanum, austur af Grindavík og milli Garðs og Sandgerði. Spóinn sem fjölgar sér á Suðurnesjum, eyðir vetrunum í Afríku og krían flyst á suðurheimskautið. Heiðlóan, tjaldur, og hrossagaukurinn eru farfuglar og eru algengir á svæðinu, á meðan sendlingur er einn af fáu vaðfuglum sem flyst ekki til annara landa á veturnar. Á meðal spörfugla þá eru skógarþröstur og snjótittlingur algengir, einnig er starri á landinu allt árið um kring. Stærsti spörfuglinn er hrafninn. Æðafuglinn er langalgengasta andartegundin á Íslandi. Á Suðurnesjum þá er æðafuglinn fjárhagslega mikilvægur, því bændur á svæðinu týna verðmætann dúninn úr hreiðrum þeirra. Grágæsinn hreiðrar um sig á láglendinu og álftin er eina tegund svana sem fjölgar sér á Íslandi.