Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það eru nokkrar fallegar og áhugaverðar kirkjur á Reykjanesinu sem vert er að skoða.

Keflavíkurkirkja
Keflavíkurkirkja er í Keflavíkurprestakalli í Kjalarnesprófstsdæmi. Hún er teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni, arkitekt og byggð árið 1914 eins og sjá má framan á kirkjuturni. Hins vegar var kirkjan vígð 1915, hinn 14. febrúar. Staður var kirkjunni valinn í samráði við arkitektinn haustið 1913. Kirkja hafði ekki staðið áður á þessum stað.Um aldamótin hafði að vísu verið langt komið byggingu kirkju, sem Guðmundur Jakobsson hafði teiknað og smíðað en sú kirkja, sem þá var að heita má fullgerð, skemmdist í óveðri í nóv. 1902 og var smíði hennar þá hætt. Altaristaflan er eftir Ásgrím Jónsson og sýnir Jesúm flytja Fjallræðuna; hefur hún verið í kirkjunni allt frá upphafi. Steindir gluggar eftir Benedikt Gunnarsson, myndlistarmann, voru settir í glugga kórs og framkirkju árið 1976.  Keflavíkurkirkja er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00-12:00 & 13-15. Opið á föstudögum frá kl.10:00 – 12:00. Heimasíða: www.keflavikurkirkja.is  Sími: 420 4300
Kirkjan í Ytri-Njarðvík
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurpresta-kalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979 eða tæpum áratug eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.Kirkjan er teiknuð af arkitektunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Hún er 400 fermetrar að grunnfleti og undir henni er 108 fermetra kjallari. Kirkjuskip rúmar 230 manns í sæti en safnaðarsalur, sem opnanlegur er inn í kirkjuskipið, rúmar 100 manns.Lengi var barist fyrir því að kirkja risi í Ytri-Njarðvík. Þórlaug Magnúsdóttir í Höskuldarkoti stofnaði sjóð árið 1948 til byggingar kirkjunnar. Fyrstu skóflustunguna tók Guðlaug Stefánsdóttir í Þórukoti 13. september 1969.  www.njardvikurkirkja.is  Sími: 421 5013
Kirkjan í Innri-Njarðvík
Njarðvíkurkirkja er sóknarkirkja Innri-Njarðvíkur, hún var vígð 18.júlí 1886. Saga kirkjunnar í Innri Njarðvík, nær að minnsta kosti aftir til 14.aldar.   Kirkjan hefur verið opin til sýnis frá miðvikud. - sunnudags kl. 13:00 - 17:00 frá júní til 31. ágúst og eftir samkomulagi eftir þann tíma. Upplýsingar hjá sóknarpresti Baldri Rafni Sigurðssyni.
Útskálakirkja
Kirkjustaður og prestsetur í Garði. Útskálar voru eitt mesta höfuðból á Suðurnesjum ásamt Stóra-Hólmi í Leiru og Kirkjubóli á Miðnesi. Kirkja sú er nú stendur á Útskálum var reist á árunum 1861-1863, timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni og tekur um 200 manns í sæti. Forsmiður var Einar Jónsson frá Brúarhrauni. 1975 var forkirkja stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð. Altaristaflan er eftr erlendan málara og sýnir boðun Maríu, predikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykajvík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson. Séra Sigurður B. Sívertssen var prestur að Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum s.s. jarðabótum, og húsbyggingum, m.a. lét hann byggja kirkjuna sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál sem hann skrifaði. Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð, hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkju er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri trú voru Pétur postuli og Þorlákur helgi. Einn hryggilegasti atburður sjóferðarsögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8.mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum, um nóttina rak 47 lík á land í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju á Íslandi.
Hvalsneskirkja
Hvalsneskirkja, vígð 1887 staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga.Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins.Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns.  Kirkjan er friðuð Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross. 
Kirkjuvogur
Fyrrum stórbýli í Höfnum, útkirkjustaður í Grindavíkurprestkalli frá 1907 en var áður alllengi þjónað frá Útskálum.  Enn fyrr var Kirkjuvogi þjónað frá Hvalsnesi.  Kirkja í Kirkjuvogi var helguð Maríu guðsmóður í kaþólskum sið.  Í illviðrinu mikla í ársbyrjum 1799 skemmdist kirkjuhúsið mikið.