Grindavíkurbær er næsta bæjarfélag við gosstöðvarnar og hefur margt uppá að bjóða!
- Góður bær
Grindavík er nú opin ferðamönnum og gestum frá 21. október 2024 og gildir þar til hættustigi kann að vera lýst yfir á ný. Viðbragðsaðilar og vettvangsstjórn verða áfram starfandi með óbreyttum hætti og eftirliti með umferð inn og út úr bænum verður sinnt með rafrænum hætti í öryggisskyni ef til rýmingar kemur. Opnun bæjarins með þessum hætti byggir m.a. á áhættumati sem unnið er og uppfært reglulega sem og hættumati Veðurstofunnar. Mikilvægt er að þau sem leggja leið sína til Grindavíkur virði leiðbeiningar og hafi eftirfarandi hugfast:
Mikilvægar öryggisráðstafanir
Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi til þess að auka öryggi í Grindavík en þær felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hefur bæði verið fyllt í sprungur og/eða þær girtar af og álagsprófanir hafa verið gerðar á viðgerðum stöðum. Komið hefur verið upp greinargóðum merkingum og verða ákveðin hættusvæði í bænum merkt sérstaklega. Eftir sem áður getur verið hætta á jarðfalli ofan í sprungur, einkum á opnum svæðum í og við Grindavík sem ekki hafa verið skoðuð sérstaklega.
Þrátt fyrir að ýmsar öryggisráðstafanir auki öryggi í bænum er rétt að leggja áherslu á að íbúar og gestir dvelji inni á hættusvæði á eigin ábyrgð. Hver og einn verði að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Grindavík er ekki staður fyrir börn.
• Jarðhræringum í og við Grindavík er hvergi lokið og nauðsynlegt að fara að öllu með ítrustu gát;
• Áfram verður öflugt eftirlit með mögulegri náttúruvá til að hægt verði að bregðast við breyttum aðstæðum;
• Rekstraraðilar, þ.m.t. ferðaþjónustuaðilar, eru hvattir til að uppfæra sínar öryggisáætlanir reglulega og kynna þær ítarlega fyrir starfsfólki og gestum;
• Uppfært áhættumat, sem m.a. tekur mið af þeim öryggis- og mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til, gefur til kynna að viss áhætta sé enn til staðar innan Grindavíkur og því mjög mikilvægt að fylgt sé leiðbeiningum og aðvörunum í hvívetna;
• Aðstæður geta breyst hratt og nauðsynlegt getur reynst að rýma bæinn og nágrenni með skömmum fyrirvara og loka á nýjan leik;
• Lýsi ríkislögreglustjóri yfir hættustigi eða neyðarstigi verður ákvörðun um aðgangsstýringu í höndum lögreglustjóra;
• Grindavík er ekki staður fyrir börn og börn eiga alls ekki að vera eftirlitslaus í bænum;
• Ekki er mælt með að gist sé í bænum;
• Samkvæmt áhættumati er mjög há áhætta fyrir ferðafólk í Grindavík og ferðafólk því varað við að fara inn í bæinn;
• Reynist nauðsynlegt af öryggisástæðum verður unnt að grípa til rýminga og lokunar á nýjan leik, t.d. ef breytt áhættumat gefur tilefni til;
• Einstökum svæðum innan bæjarmarkanna kann að verða lokað fyrir umferð ef nauðsyn reynist.
Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær á sunnanverðum Reykjanesskaga en í Landnámabók segir frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson og synir hans hafi numið land í Grindavík. Grindavík liggur fyrir opnu úthafinu þar sem brimaldan gengur næstum óbrotin á land. Hafnarskilyrði voru nánast engin frá náttúrunnar hendi. Sjósókn var frá fyrstu tíð erfið og áhættusöm frá Grindavík en þaðan var þó jafnan mikið útræði, meðal annars lengi á vegum Skálholtsstóls. Má enn sjá för í klettum fyrir ofan varirnar þar sem skipin voru sett upp.
Nú er höfnin í Grindavík með betri og öruggari fiskihöfnum landsins sem iðar af lífi allt árið um kring. Það eru fáir staðir á Íslandi þar sem hægt er að fá sjómennskuna jafn beint í æð og í Grindavík. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1974 og hefur bærinn vaxið og dafnað jafnt og þétt en íbúar í dag eru um 3.800 talsins.
Í Grindavík er allt til alls fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, nýtt tjaldsvæði, 18 holu golfvöllur, sundlaug, Bláa Lónið og mikið úrval hágæða veitingahúsa. Ýmis afþreying er í boði og stórbrotin náttúra Reykjanessins við bæjardyrnar.
Íþrótta- og menningarlíf hefur löngum verið öflugt í Grindavík en Grindvíkingar halda Menningarviku hátíðlega í mars og bæjarhátíð Sjóarinn síkáti um Sjómannadagshelgina er sannkölluð fjölskylduhátíð sem dregur að sér þúsundir gesta ár hvert.
Verið velkomin til Grindavíkur. Við tökum vel á móti ykkur.