Aðgerðaráætlun ferðamálastefnu 2030 til umsagnar
Síðast liðið ár hefur mikil vinna farið fram á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins við uppfærslu á stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 og aðgerðum í aðgerðaráætlun.
Í uppfærðum stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálastefnu til 2030, eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti. Aðgerðaáætlun ferðamálastefnu mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum.
Í maí 2023 skipaði ferðamálaráðherra sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum inn í aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024. Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis. Sjá nánar á www.ferdamalastefna.is.
Starfshóparnir sjö ná utan um alla þætti ferðaþjónustu, þ.e. sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu.
Starfshóparnir hafa þegar haft viðamikið samráð við haghafa og unnið þétt að verkefninu frá maí, m.a. með fjölda vinnustofa. Í samræmi við tímaáætlun verkefnisins hafa starfshóparnir nú skilað til stýrihóps fyrstu drögum að aðgerðum inn í aðgerðaráætlun ferðamálastefnu. Hafa þau drög verið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda.
Í framhaldinu er á næstu vikum áformað að halda opna umræðu- og kynningarfundir um vinnuna í öllum landshlutum. Starfshóparnir halda áfram starfi sínu, vinna m.a. úr umsögnum og skila síðan endanlegum tillögum fyrir 15. desember 2023, til framangreinds stýrihóps verkefnisins sem samræmir aðgerðir í heildstæða aðgerðaáætlun og þingskjal, og skilar til ráðherra í janúar 2024.
- Sjá nánar frétt á vef Stjórnarráðsins
- Lesa nánar um verkefnið inn á ferdamalastefna.is