Gunnuhver einn af draugalegustu stöðum heims
Hið virta tímarit Architectural Digest hefur útnefnt Gunnuhver sem einn af 37 draugalegustu stöðum heims. Í grein á vef tímaritsins er saga Gunnu sögð sérstaklega áhugaverð. Þjóðsagan segir í stuttu máli frá því að vofa Gunnu (Guðrún Önundardóttir) er sögð hafa orðið fjandmanni sínum og eiginkonu hans að bana eftir erjur um pott. Vofa Gunnu hrelldi íbúa á Reykjanesi talsvert eftir það en að lokum var það prestur sem kvaddi Gunnu í hverinn sem nú ber nafn hennar. Þar er hún sögð bregða fyrir annað slagið enn þann dag í dag. Í greininni eru lesendur hvattir til að heimsækja endilega þessa 37 drungalegu staði víðsvegar um heiminn, bara ekki á Hrekkjavöku sem er þann 31. október ár hvert.
Architectural Digest er alþjóðlegt hönnunartímarit unnið af helstu arkítektum og hönnuðum heims en viðfangsefni þess eru einnig menning og ferðalög.