Nýr starfsmaður hjá Markaðsstofu Reykjaness
Við bjóðum Liam Davies velkominn til starfa hjá Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanes jarðvangi. Liam hefur verið ráðinn í tímabundna stöðu til að sinna efnisgerð og markaðssetningu fyrir áfangastaðinn og Reykjanes jarðvang. Staðan var auglýst í lok apríl og bárust 50 umsóknir.
Það er mikill styrkur fyrir markaðssetningu á svæðinu að fá Liam til liðs við okkur og samstarfsfyrirtækin okkar. Það eru mörg aðkallandi og spennandi verkefni sem liggja fyrir og mikilvægt að fá þennan liðsstyrk í teymið til að vinna að þeim með okkur, segir Þuríður Aradóttir Braun forstöðukona Markaðsstofu Reykjaness.
Liam hefur mikla reynslu úr efnis- og textagerð fyrir mismunandi miðla og markhópa í ferðaþjónustu, auk þess sem hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á miðlun efnis og markaðssetningu. Hann hefur búið á Íslandi síðast liðin 8 ár og unnið meðal annars hjá Northbound, Gateway to Iceland, Hvíta húsinu og Play. Liam sem er búsettur í Vogunum hefur nú þegar hafið störf og kemur til með að vera sýnilegur í þeirri vinnu sem framundan er fyrir Reykjanesið.