Nærri tíu þúsund sóttu Safnahelgi
Rúmlega 9500 manns lögðu leið sína á Safnahelgi á Suðurnesjum þetta árið en aldrei áður hafa eins margir sótt Suðurnesin heim í tengslum við þessa hátið sem haldin var í ellefta sinn. Veðurguðirnir voru Suðurnesjamönnum hliðhollir og skörtuðu sínu fegursta. Bæði söfn og einstaklingar lögðu grunn að fjölbreyttri hátíð þar sem menning og afþreying var í boði fyrir alla aldurshópa. Met voru slegin á nánast öllum söfnum sem tóku þátt og ljóst að Suðurnesjamenn og nærsveitunga þyrstir í menningu. Markaðsstofa Reykjaness sá um markaðssetningu Safnahelgar þetta árið og átti mjög gott samstarf við menningarfulltrúa og aðra góða aðila sem sáu um skipulag hátíðarinnar.
Sjá myndasafn á Facebook Safnahelgar
Valgerður Guðmundsdóttir verkefnastjóri Safnahelgar var hæstánægð með helgina. „Safnahelgi á Suðurnesjum var haldin hátíðleg í ellefta sinn um síðustu helgi og hefur aldrei gengið betur. Veðrið var dásamlegt og auðséð að íbúar höfðu ákveðið að njóta nú þess sem í boði var og skoða söfnin sín. Einnig kom fjöldi gesta af höfuðborgarsvæðinu og mátti heyra aðdáunartón úr hverju horni þannig að við getum verið sátt með okkar stöðu. Undirbúningshópur verkefnisins er í skýjunum með hvernig til tókst og hugur í fólki að hefja fljótt undirbúning að næstu hátíð.“