Gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu
Í aðdraganda jólaverslunar taka Icelandair, Samtök ferðaþjónustunnar og Markaðsstofur landshlutanna höndum saman og bjóða landsmönnum upp á gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu.
Gjafabréfið mun gilda hjá öllum fyrirtækjum sem eru aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar og / eða Markaðsstofum landshlutanna. Þannig verður hægt að nota gjafabréfið hjá hundruðum fyrirtækja í ferðaþjónustu um land allt.
Samstarfsaðili okkar í þessu markaðsátaki er fyrirtækið YAY sem hefur haldið utan um framkvæmd Ferðagjafarinnar sem við þekkjum vel. Rétt er þó að geta þess að gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu er ótengt Ferðagjöfinni. Hins vegar byggjum við á sömu hugmyndafræði, þannig að ferðaþjónustufyrirtæki eiga að þekkja hvernig á að taka við greiðslum í gegnum YAY appið og hvernig uppgjör fer fram.
- Nánari upplýsingar um YAY má finna hér: www.yay.is
Öflugt markaðsátak í aðdraganda jóla
Lagt verður upp í öflugt markaðsátak til að kynna gjafabréfið í aðdraganda jóla. Auglýst verður á vefmiðlum og í útvarpi ásamt því að gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu verður áberandi á samfélagsmiðlum. Þá munu aðilar markaðsátaksins nýta allar sínar dreifileiðir í Netheimum. Saman verðum við mjög öflug og ætti gjafbréf íslenskrar ferðaþjónustu ekki að fara framhjá neinum í aðdraganda jóla. Við leggjum upp með að átakið nái yfir 4-5 vikur í heild sinni.
Til að fylgja öflugu markaðsátaki verður ráðist í beina sölu til fyrirtækja á gjafabréfum. Stefnt er að því að hafa samband við 150 – 200 stöndug fyrirtæki í öllum atvinnugreinum með kaup á gjafabréfinu í huga.
Hvernig tek ég þátt og hvað kostar að vera með?
Ekki verður um neinn þátttökukostnað að ræða hjá fyrirtækjunum, heldur taka þau sjálfkrafa þátt í átakinu með því að vera aðilar að SAF og / eða Markaðsstofunum. Vilji einhver fyrirtæki ekki taka þátt viljum við hvetja aðila til að hafa samband við sína markaðsstofu eða SAF.
Hvernig virkar þetta?
Á heimasíðu YAY verður hægt að kaupa rafrænt gjafabréf sem viðkomandi getur síðan gefið áfram með rafrænum hætti í gegnum síma og tölupóst. Viðtakandi gjafarinnar fær þá meldingu með sms-i eða tölvupósti sem leiðir hann áfram á einfaldan hátt í að hlaða niður léttu appi sem vistar síðan gjöfina. Næsta skref hjá viðtakanda er síðan að fara á heimasíðu YAY og / eða þeirra sem standa að átakinu til að sjá hvar hægt er að nota gjöfina.
Gildistími gjafarinnar er 4 ár frá útgáfu.
Kaup og kjör
YAY tekur 5% færslugjald sem dregast af hverri gjöf. Ekki er neinn afsláttur gefinn hjá fyrirtækjum af kaupum á gjafabréfi í almennri sölu.
- Dæmi: Gjafabréf að verðmæti 10.000,- kr. hjá handhafa verður að 9.500,- við notkun hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum.
Þau fyrirtæki sem kaupa gjafabréf í beinni sölu fá 20% afslátt af gjafabréfinu. Þau ferðaþjónustufyrirtæki sem taka þátt í markaðsátakinu gefa afsláttinn í framkvæmd.
- Dæmi: Gjafabréf að verðmæti 10.000,- kr. hjá handhafa verður 9.600,- kr við notkun hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum en 7.600,- kr. í uppgjöri á gjafabréfinu hjá YAY. (20% afsláttur verður 8000,- kr. mínus 5% færslugjald sem gera 7.600,- kr.)
Rétt er þó að geta þess að það er síðan ferðaþjónustufyrirtækjanna að útfæra hvernig notkun á gjafabréfinu er háttað hjá þeim. Hvort gjafabréfið nýtist við kaup á vörum og þjónustu sem þegar er afsláttur af eða hvort gjafabréfið gildi ekki með öðrum tilboðum.
Gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu verður jólagjöfin í ár!
Með því að bjóða landsmönnum upp á gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu í aðdraganda jóla vilja Icelandair, Samtök ferðaþjónustunnar og Markaðsstofur landshlutanna vekja athygli á hversu öflug ferðaþjónusta er um land allt ásamt því að hvetja til innlendrar neyslu í ferðaþjónustu. Við sáum það á liðnu sumri að landsmenn voru duglegir að fara um landið okkar og upplifa það besta sem ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða.
Saman erum við sterkari og það er von okkar að gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu eigi eftir að slá í gegn og verði jólagjöfin í ár hjá landsmönnum!
Með bestu kveðjum,
Icelandair, Samtök ferðaþjónustunnar og Markaðsstofur landshlutanna