Framtíðarsýn í ferðamálum á Reykjanesi
Áfangastaðaáætlun Reykjaness 2018-2021 hefur verið gerð opinber en hún er unnin samkvæmt stefnu stjórnvalda um þróun ferðamála á landsvísu. Með skýrslunni eru lögð drög að frekari þróun í ferðamálum á svæðinu en skýrslan er sú fyrsta sem sérstaklega hefur verið unnin fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að ferðaþjónusta er stærsti atvinnuveitandinn á Reykjanesi með um 26% starfa á svæðinu. Með hliðsjón af staðsetningu svæðisins er ljóst að mikil tækifæri eru hér á uppbyggingu. Svæðið er í nágrenni við Keflavíkurflugvöll, Reykjavík og vinsæla ferðamannastaði á Suðurlandi. Það eru tækifæri í því að tengja svæðið betur þessum stöðum og markaðssetja Reykjanes sem úthverfi höfuðborgarinnar.
Lesa má skýrsluna hér
Tilgangur með áfangastaðaáætluninni er að skerpa á hlutverki og ábyrgð þeirra sem koma að ferðamálum á svæðinu auk þess sem skýrslunni er ætlað að vera verkfæri til að fylgja eftir stefnumótun fyrir áfangastaðinn og móta leikreglur um markaðssetningu, uppbyggingu áningarstaða, útivist, vöruþróun, fræðslu, aðra starfsemi og verndun.
Áfangastaðaáætlun Reykjaness nær yfir sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum; Reykjanesbæ, Grindavíkurbæ, Suðurnesjabæ og Voga. Við gerð áætlunarinnar var unnið út frá þeim áætlunum og stefnum í umhverfis-, ferða-, menningar-, og markaðsmálum sem fyrir liggja hjá sveitarfélögunum og sameiginlegum verkefnum svæðisins. Markaðsstofa Reykjaness hefur unnið áfangastaðaáætlun fyrir áfangastaðinn Reykjanes í samstarfi við Reykjanes Geopark og hagaðila á svæðinu.
Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa frá árinu 2016 leitt vinnu við gerð áfangastaðaáætlana fyrir alla landshluta - DMP (e. Destination Management Plans) í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna sem fara með verkefnisstjórn áætlanagerðarinnar á sínum svæðum.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið á vef Ferðamálastofu.