Erlendum ferðamönnum boðið í „Hangout“ með Guðmundum
Ísland – allt árið kynnir nú uppfærslu á hinni vel heppnuðu mannlegu leitarvél Guðmundur sem hófst í vor með tilkomu nýjustu markaðsherferðar Inspired by Iceland „Ask Guðmundur“. Hún hefur þá sérstöðu umfram aðrar leitarvélar að vera mennsk eins og áður segir og hefur hún það megin markmið að svara spurningum ævintýraþyrstra ferðalanga um heilsársáfangastaðinn Ísland. Guðmundarnir og Guðmundurnar sjö sem síðast svöruðu persónulega spurningum áhugasamra eru sem áður fengin til þess að vera fulltrúar hvers landshluta á Íslandi en í þetta skiptið munu ferðalangar kynnast frá fyrstu hendi „Hangout“ með Guðmundum.
Framhald verðlaunaherferðar
Herferðin hefur vakið mikla athygli á erlendum mörkuðum en myndbönd Ask Guðmundur hafa fengið um tvær milljón spilanir á YouTube og Facebook, og fengið jákvæð viðbrögð frá erlendum miðlum sem og notendum á samfélagsmiðlum. Sem dæmi hafa yfir 400 umfjallanir í erlendum fjölmiðlum verið birtar um vorhluta Guðmundar herferðinnar þar sem fjölmiðlavirði er metið á yfir 590 milljónir íslenskra króna og hefur Inspired by Iceland herferðin hlotið fjölda verðlauna, nú síðast Skifties verðlaun fyrir nýstárlega notkun samfélagsmiðla í tengslum við Ask Guðmundur vorherferðina.
„Guðmundur Hangouts“ byggir á vinsældum vorherferðarinnar og býður einstakt tækifæri fyrir tilvonandi ferðalanga að kynnast með persónulegri hætti hvað Ísland hefur að bjóða en nokkrir ferðamenn munu eiga kost á að hanga með Guðmundum í einstöku ferðalagi.
„Ég tel að framhald Ask Guðmundur leitarvélarinnar eigi eftir að endurspegla vel og á skemmtilegan hátt hvað íslensk ferðaþjónusta býður upp á bæði hvað varðar framboð fyrirtækja og það sem landshlutarnir bjóða upp á. Samstarfið hefur skilað okkur miklu og það er gaman að segja frá því að önnur lönd, og fagaðilar erlendis, fylgjast vel með því sem frá okkur kemur. Það eru góð meðmæli en það sem skiptir mestu máli er að við erum að vekja athygli á Íslandi sem heilsársáfangastað og að fá ferðamenn til að ferðast meira um landið og sú vinna er mikilvæg“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.
Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við markaðsstofur landshlutanna sem og aðilum að Ísland – allt árið.
Hægt verður að fylgjast með Guðmundum um allt land og samskiptum þeirra við tilvonandi ferðamenn á samfélagsmiðlum markaðsverkefnisins og einnig með #AskGuðmundur, #IcelandSecret og www.inspiredbyiceland.com