Atvinnutekjur jukust um 39% á Suðurnesjum milli 2008 og 2017
Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum hækkuðu um 39% á milli áranna 2008 og 2017. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur eftir landshlutum og atvinnugreinum á þessu tímabili. Langmesta aukningin var í flutningum og geymslu en greinin nær þrefaldaðist á tímabilinu 2008-2017. Þá varð einnig veruleg aukning í öðrum greinum tengdum ferðaþjónustu og á Keflavíkurflugvelli, þ.e. leigu og sérhæfðri þjónustu og gistingu og veitingum. Nokkur samdráttur varð í mannvirkjagerð á tímabilinu í heild þrátt fyrir aukningu undanfarin ár. Þá var einnig samdráttur í fiskveiðum og fjármála- og vátryggingastarfsemi.
Hækkun heildaratvinnutekna á milli áranna 2016 og 2017 var 13%. Eftir nokkuð skarpt samdráttartímabil á svæðinu í kjölfar efnahagshrunsins hefur verið samfelldur vöxtur allt frá árinu 2011 en mestur varð hann á árunum 2016 og 2017.
Á árinu 2017 voru langmestu atvinnutekjurnar greiddar í flutningum og geymslu en nokkuð þar á eftir komu leiga og sérhæfð þjónusta, mannvirkjagerð, fræðslustarfsemi, verslun, fiskvinnsla og opinber stjórnsýsla. Áðurnefndar atvinnugreinar sem tengjast ferðaþjónustu og umsvifum á Keflavíkurflugvelli eru fyrirferðarmestar á Suðurnesjum utan Grindavíkur þar sem sjávarútvegur er fyrirferðarmestur.
- Meðalatvinnutekjur á íbúa á Suðurnesjum eru nokkuð undir landsmeðaltali en lægstar eru þær í Sandgerði, Garði og Vogum.
- Hlutfall atvinnutekna kvenna af heildaratvinnutekjum á Suðurnesjum fór úr 32,8% árið 2008 í 36,3% árið 2017.
Lesa má skýrsluna í heild sinni hér