Árið byrjar af krafti í ferðaþjónustu á landsvísu
Ferðakaupstefnan Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verður haldin fimmtudaginn 19. janúarí Kórnum í Kópavogi á milli 12 og 17. Viðburðurinn er sá fjölmennasti í íslenskri ferðaþjónustu og hefur skipað sér sess sem einn sá allra mikilvægasti í íslenskri ferðaþjónustu. Gert er ráð fyrir að fjöldi gesta verði á bilinu 600-800 og því má með sanni segja að árið 2023 byrji með krafti í ferðaþjónustu.
Það má með sanni segja að útlitið fyrir íslenska ferðaþjónustu sé bjart og bókunarstaða ársins lofar góðu, í öllum landshlutum. Það er því mikil tilhlökkun hjá fólki í greininni að hittast í Kórnum til að ræða málin.
Á Mannamótum Markaðsstofa landshlutanna gefst samstarfsfyrirtækjum markaðsstofanna tækifæri til að kynna sig fyrir fólki í ferðaþjónustu sem starfar á höfuðborgarsvæðinu og koma á nýjum viðskiptasamböndum og styrkja þau sem fyrir eru. Ekki er vanþörf á því í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 en vegna hans þurfti að aflýsa viðburðinum árið 2021 og hann fór einnig seinna fram en venjulega árið 2022.
Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti sem mæta á viðburðinn, en þeim er þó bent á að skrá sig áður en þeir mæta svo auðveldara sé að áætla fjölda gesta. Hægt er að skrá sig áhttps://www.markadsstofur.is/is/mannamot/skraninggesta