Alþjóðleg ráðstefna EGN 2024 haldin á Reykjanesi
Reykjanes jarðvangur tryggði sér í síðustu viku, næstu alþjóðlegu ráðstefnu Evrópskra jaðvanga (EGN) sem haldin verður í byrjun október 2024 í Hljómahöll. Áætlað er að allt að 600 manns sæki ráðstefnuna.
Auglýst var eftir umsóknum um að halda ráðstefnuna í fyrra vor og rann umsóknafrestur út 30. nóvember s.l. Umsókninni var svo fylgt eftir á félagafundi EGN sem fór fram í Hateg UNESCO Global Geopark í síðustu viku, með kynningu frá Reykjanes jarðvangi. Í kjölfarið kusu félagsmenn milli umsókna, en fjórar umsóknir bárust um fundinn frá jarðvöngum í Finnlandi, Danmörk, Grikklandi og Íslandi. Ísland fékk um helming atkvæða, sem tryggði Reykjanes jarðvangi rétt til að halda næstu ráðstefnu.
Alþjóðleg ráðstefna Evrópska netverksins miðar að því að kynna og fjalla um verkefni og starfsemi jarðvanganna. Ráðstefnan stendur yfir í 3 daga, með allt að 150 erindum, kynnisferðum og málstofum, þar sem fjallað er meðal annars um byggðaþróun, ferðaþjónustu, sjálfbærni, fræðslu, menntun, nýsköpun og verndun náttúru innan jarðvanga um alla Evrópu.
Umsóknin var unnin með Markaðsstofu Reykjanes sem vinnur þessi misserin í áhersluverkefni um fundi og ráðstefnur á Reykjanesi og í mjög góðu samstarfi við sveitarfélögin og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, Icealand Travel og Meet in Reykjavík. Kjarninn í umsókninni verður nýttur áfram til sem kynningarefni í svokölluð ráðstefnu-bid og kemur til með að nýtast fyrirtækjum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu sem hyggjast bjóða í ráðstefnur inn á svæðið.