Uppfært kort - hættusvæði við gosstöðvarnar
Veðurstofan hefur uppfært kort á hættumati fyrir gosstöðvarnar, sem skilgreinir hættusvæðið eins og það lítur út í dag.
Appelsínuguli liturinn sýnir skilgreint hættusvæði.
Í kringum gosstöðvarnar geta leynst ýmsar hættur. Gróðureldar geta kviknað sem draga úr loftgæðum og nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara. Einnig getur glóandi hraun fallið úr hraunjaðrinum og nýjar hrauntungur geta skyndilega brotist fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða.
Gasmengun er viðvarandi og hættan eykst þegar vind lægir, gas getur einnig safnast í dældir í landslaginu og verið banvænt.
Yfirvöld vara fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar.