Umfangsmikil áætlunargerð í ferðaþjónustu um allt land
Eitt stærsta samhæfða þróunarverkefni í íslenskri ferðaþjónustu er hafið, en þar er um að ræða gerð stefnumarkandi stjórnunaráætlana (e. Destination Management Plan) í öllum landshlutum. Ferðamálastofa hefur gengið til samninga við markaðsstofur landshlutanna og Höfuðborgarstofu um að leiða vinnuna í hverjum landshluta en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um verkefnið, ásamt markaðsstofum landshlutanna.
Undirbúningur fyrir þetta verkefni hefur staðið yfir frá árinu 2015, eða frá því að Vegvísir ferðaþjónustunnar kom út, en þar er þetta verkefni skilgreint sem eitt af forgangsverkefnum.
Stjórnstöð ferðamála leiddi þannig saman hagsmunaaðila og hefur samhæft undirbúning og innleiðingu verkfæra og aðferðafræði, en Ferðamálastofa fjármagnar verkefnið og heldur utan um framkvæmd þess. Stofnunin mun þannig beina 100 milljónum kr. af verkefnafé sínu til framkvæmdar verkefnisins á næstu 12 mánuðum.
Markaðsstofa Reykjaness kemur til með að leiða verkefnið fyrir Reykjanesið í samstarfi við Reykjanes Unesco Global Geopark. En eins og fram kemur í tímaáætlun um verkefnið þá hefst það í byrjun apríl og stefnt er að því að halda opna kynningarfundi í öllum sveitarfélögum í lok mánaðarins og vinnufundi með hagsmunaaðilum í kjölfarið.
"Við hlökkum til að takast á við þetta metnaðarfulla verkefni fyrir svæðið. Ferðaþjónustan, sveitarfélögin og aðrir hagaðilar hafa unnið mikla vinnu undanfarin ár sem kemur til með að nýtast verkefninu og ég er sannfærð um að sú vinna sem framundan er með samfélaginu eigi eftir að skila sér í ferðamálastefnu fyrir Reykjanesið sem við getum öll unnið eftir og verið solt af," segir Þuríður H. Aradóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness
Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðu Ferðamálastofu.