Sýning á tillögum í hönnunarsamkeppni um þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til 2040
Sýning á tillögum sem bárust frá 6 alþjóðlegum hönnunarstofum hefur verið sett upp á skrifstofum Isavia á þriðju hæð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verður hún opin almenningi kl. 9 – 16 alla virka daga til 20. mars næstkomandi.
Hönnunarstofan Nordic - Office of Architecture í Noregi varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um gerð uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára. Vinningstillagan þótti skara fram úr varðandi sjálfbærni og skipulags- og umhverfismál auk þess sem skýr stefna er sett í tekjusköpun á uppbyggingartíma og rík árhersla er á samráð við hagsmunaaðila og nærsamfélag flugvallarins. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun flugstöðvarinnar til norðurs og lagningu nýrrar norður-suður flugbrautar vestan við flugvöllinn í framtíðinni.
Með sýningunni gefst gestum tækifæri á að skoða vinningstillögu Nordic og koma með tillögur og athugasemdir á meðan á sýningartíma stendur.
Frekari upplýsingar má finna á vef Isavia.