Sjálfbærnivika á Reykjanesi – Hvernig getur ferðaþjónustan tekið þátt?
Í lok september verður haldin fyrsta Sjálfbærnivikan á Reykjanesi, en hún hefst á alþjóðlegum fánadegi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þann 25. september og stendur til 1. október 2025. Aðstandendur verkefnisins eru hluti af Suðurnesjavettvangi og UNESCO skólum á svæðinu, en markmiðið er að vekja athygli á því sem við getum öll gert til að stuðla að sjálfbærni – í skólastarfi, í daglegu lífi og í atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu.
Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes jarðvangur koma að verkefninu og beina sjónum sérstaklega að því hvernig ferðaþjónustan getur lagt sitt af mörkum. Hugmyndin um „nærandi ferðaþjónustu“ eða bætandi ferðaþjónustu er í brennidepli. Hvernig erum við eða gestir okkar að styðja við og skilja eftir jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið.
Við viljum hvetja öll ferðaþjónustufyrirtæki á Reykjanesi til að taka þátt – hvort sem það er með fræðslu, viðburðum, tilboðum eða verkefnum sem snúa að umhverfisvernd og samfélagslegri ábyrgð. Hvernig eru ferðaþjónustufyrirtæki að vinna með sjálfbærni og hvernig geta ferðaþjónustufyrirtæki tekið þátt?
Við leitum eftir samstarfi við ykkur – fyrirtæki, gististaði, ferðaskipuleggjendur og aðra þjónustuaðila – til að gera Sjálfbærniviku að lifandi og árlegum viðburði.
Ef þú vilt vita meira um Sjálfbærnivikuna, hefur áhuga á að taka þátt eða hefur hugmynd að verkefni/viðburði hafðu samband við verkefnastjóra verkefnisins og fræðslufulltrúa Reykjanes jarðvangs, Sigrúnu Svöfu Ólafsdóttur, sigrun@geocamp.is.