Samstarfsyfirlýsing undirrituð vegna markaðssetningar erlendis fyrir áfangastaðinn Ísland
Íslandsstofa stóð fyrir fundi þann 23. febrúar s.l. um ímynd Íslands sem áfangastaðar sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskrift fundarins var Er ímynd Íslands að breytast?, en þar var farið yfir markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar erlendis, gengi síðustu ár og framtíðarhorfur.
Á sama tíma var tekið mikilvægt skref í samstarfi Íslandsstofu, Höfuðborgarstofu og markaðsstofa landshlutanna þegar fulltrúar þessara stofnana undirrituðu formlega samstarfsyfirlýsingu á vettvangi markaðssetningar erlendis fyrir áfangastaðinn Ísland.
Markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofa og Íslandsstofa hafa átt í góðu samstarfi undanfarin ár, sem ekki hefur verið formgert fyrr en nú. Markaðsstofurnar sjö og Íslandsstofa eru samstarfsvettvangur og vinna í nánu samstarfi við hagaðila á sínum svæðum.
Við hjá Markaðsstofu Reykjaness erum mjög ánægð með það samstarf sem verið hefur á milli þessara aðila og væntum mikils af frekara samstarfi við markaðssetningu Íslands og landshlutans í framtíðinni.
Meira um fundinn á vef Íslandsstofu.
*Mynd
Þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna voru eftirfarandi aðilar, talið frá vinstri:
Arnheiður Jóhannsdóttir, Markaðsstofa Norðurland
Áshildur Bragadóttir, Höfuðborgastofa
Dagný Hulda Jóhannsdóttir, Markaðsstofa Suðurlands
Díana Jóhannsdóttir, Markaðsstofa Vestfjarða
Jón Ásbergsson, Íslandsstofa
Jóna Árný Þórðardóttir, Austurbrú
Kristján Guðmundsson, Markaðsstofa Vesturlands
Þuríður H. Aradóttir, Markaðsstofa Reykjaness