Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Rokksafn Íslands hlýtur Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar

Tómas Young fyrir miðju ásamt Daníel Einarssyni frá Reykjanes Geopark og Þuríði Aradóttur Braun frá …
Tómas Young fyrir miðju ásamt Daníel Einarssyni frá Reykjanes Geopark og Þuríði Aradóttur Braun frá Markaðsstofu Reykjaness.
Rokksafn Íslands hlaut Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi árið 2019 en nú rétt í þessu lauk vetrarfundi ferðaþjónustunnar þar sem verðlaunin voru afhent. Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar tók á móti verðlaununum en hann og starfsfólk Hljómahallar hafa unnið afar metnaðarfullt starf síðan Rokksafnið var sett á laggirnar árið 2014.


Í umsögn frá Markaðsstofu Reykjaness segis um Rokksafnið:

„Sagnaarfur okkar Íslendinga á sér langar rætur og víða um land má finna söfn og sýningar sem geyma og rifja upp fyrir okkur sögu okkar og menningararf. Rokksafn Íslands eins og nafnið ber með sér segir sögu tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1830 til dagsins í dag, með sérstaka áherslu á popp og rokktónlist sem er samofin nútímasögu og menningu okkar á Suðurnesjunum.

Þó safnið eigi sér stutta sögu, en það var opnað í apríl 2014 og fagnar því 5 ára afmæli í ár, þá hefur það stimplað sig inn í menningarlíf samfélagsins með uppákomum og sérsýningum sem settar hafa verið upp og reglulega bætast nýjungar við í fjölbreytta flóru safnmuna. 

Forsvarsmenn hafa lagt mikinn metnað í uppbyggingu safnsins og leitað leiða til að gera söguna lifandi og skemmtilega á faglegan hátt fyrir gesti. Hvort heldur með því að nýta nútíma tækni eða þróa nýjar lausnir eins og sést með plötuspilaranum hér frammi. Þannig geta gestir tekið virkan þátt í sýningunni og aukið við upplifun sína, meðal annars með því að lagið í sérstökum söngklefa eða grípa í hljóðfæri. Þá geta safngestir einnig nýtt sér tæknina og skoðað söguna með Rokk-appinu.

Rokksafnið á sér enga hliðstæðu á Íslandi og það er einstakt að hafa aðgang að slíkri perlu hér á svæðinu.

Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness hafa ákveðið að veita Rokksafni Íslands Nýsköpunar- og hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019.“