Reykjanes einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi
Reykjanes hefur verið valinn einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017.
Tilkynnt var um viðurkenninguna í dag, 27. september, á alþjóðlegum degi ferðaþjónustunnar. Dagurinn í ár sem og árið 2017 er helgað sjálfbærri ferðaþjónustu.
Það eru alþjóðlegu samtökin Green Destinations sem standa að valinu líkt og undanfarin ár en að baki þeim stendur hópur sérfræðinga, fyrirtækja og stofnana um allan heim. Markmið samtakanna með útnefningu þessara 100 staða er að vekja athygli á árangursríkum aðferðum við stjórnun áfangastaða. Um 2.000 áfangastaðir eru í gagnagrunni samtakanna og eru metnir fjölmargir og ólíkir þættir, s.s. stjórnun áfangastaðar, náttúrufar, meðferð dýra, landslag, umhverfismál, menning, hefðir, félagsleg velferð, viðskiptaumhverfi og gestrisni.
„Mikil viðurkenning“
Kjartan Már Kjartansson formaður stjórnar Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanes UNESCO Global Geopark segir að um mikla viðurkenningu sé að ræða fyrir svæðið í heild sinni. „Mikil vinna hefur verið unnin við stefnumótun og uppbyggingu innviða á undanförnum árum hjá stoðstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum á Reykjanesi sem nú er að skila sér. Öll verkefni sveitarfélaganna, Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanes Geopark eru í þágu byggðaþróunar. Viðurkenningin er til marks um að við erum á réttri leið og hvatning til að halda vinnunni áfram."
Áfangastaður á forsendum samfélagsins
Þuríður H. Aradóttir forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness á von á því að viðurkennigin ýti undir áhuga ferðamanna að heimsækja svæðið. „Það að komast á lista sem sjálfbær áfangastaður er mikils virði fyrir okkur á Reykjanesi. Viðurkenningin sýnir mikilvægi þess að standa saman og vinna að sameiginlegum framtíðarmarkmiðum í ferðamálum í sátt við samfélagið. Við komum til með að halda þeirri vinnu áfram og hlökkum til að sýna afraksturinn."
Á lista með heimsþekktum áfangastöðum
Reykjanes er eini íslenski áfangastaðurinn sem kemst á lista Green Destination í ár en meðal áfangastaða á listanum í ár eru Los Angeles, Niagra fossar, Asóreyjar, Höfðaborg, Svalbarði og Ljubljana.