Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Markaðsstofa Reykjaness leiðir Interreg NPA verkefni um nærandi ferðaþjónustu

Verkefnið miðar að því að innleiða og styrkja nærandi ferðaþjónustu á Norðurslóðum.

Sextán ný verkefni voru samþykkt þann 11. desember 2024 af framkvæmdanefnd Interreg NPA (Northern Periphery and Arctic ) áætlunarinnar. Meðal þeirra er REGENERATE verkefnið sem Markaðsstofan mun leiða næstu þrjá árin. Verkefnið, sem er það eina af verkefnunum sem voru samþykkt sem er leitt af íslenskum samstarfsaðila, miðar að því að innleiða og styrkja nærandi ferðaþjónustu á Norðurslóðum.

Reykjanesið, sem eitt af lykilsvæðum íslenskrar ferðaþjónustu, hefur fundið fyrir auknu álagi á umhverfi og nærsamfélög svæðisins með vaxandi fjölda ferðamanna. REGENERATE miðar að því að takast á við þessar áskoranir með því að færa áhersluna frá því að draga úr neikvæðum áhrifum yfir í að skapa jákvæðan ávinning fyrir náttúru, samfélag og efnahag.

„Það er mikill áfangi fyrir Markaðsstofu Reykjaness og Reykjanesið sem heild, að fá að leiða jafn metnaðarfullt og mikilvægt verkefni og REGENERATE. Það gefur okkur einstakt tækifæri til að þróa sjálfbærar svæðisbundnar lausnir fyrir ferðaþjónustuna, ásamt því að vernda viðkvæma náttúru og styrkja samfélagið á Reykjanesi,“ segir Þuríður H. Aradóttir Braun, verkefnastjóri REGENERATE og forstöðukona Markaðsstofu Reykjaness.

Verkefnið sameinar samstarfsaðila frá Íslandi, Finnlandi, Svíþjóð og Írlandi, þar á meðal GeoCamp Iceland, Olemisen Balanssia ry, Karelia University of Applied Sciences, Gold of Lapland Economic Association og Cuilcagh Lakelands UNESCO Global Geopark. Kvikan í Grindavík, Byggðasafnið á Garðskaga og Íslenski ferðaklasinn verða jafnframt mikilvægir hlekkir í vinnunni sem er framundan.

Með heildarfjármagn upp á 1.194.380 evrur, þar af 776.347 evrur frá Evrópska þróunarsjóðnum (ERDF), mun verkefnið einblína á að þróa lausnir og aðferðir sem stuðla að sjálfbærri og nærandi ferðaþjónustu með það að markmiði að styrkja náttúru- og menningarauðlindir á Norðurslóðum.

Upplýsingar um verkefnið koma til með að birtast hér á vefnum okkar og samfélagsmiðlum á meðan á verkefnatímanum stendur. 

Frétt af vef Interreg NPA

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast hjá Þuríði, verkefnastjóra verkefnisins (thura@visitreykjanes.is)