Hjóla- og göngustígurinn vígður
Á morgun (laugardaginn 26. júní 2021) verður nýi göngu- og hjólreiðastígurinn meðfram Vatnsleysustrandarvegi vígður með formlegum hætti. Vígslan fer fram kl. 13, um miðja leið milli Voga og Brunnastaðahverfis. Klippt verður á borða, og því fagnað að þetta góða mannvirki skuli nú loks orðið að veruleika. Allir velkomnir!
Stígurinn er 2,6 kílómetrar á lengd og liggur milli Voga og þéttbýlisins í Brunnastaðahverfi. Hann er hannaður samkvæmt stöðlum Vegagerðarinnar sem styrkir verkefnið myndarlega. Stígurinn er 2,65 metrar að breidd og rúmar því vel bæði gangandi og hjólandi vegfarendur.
Hafist var handa við gerð stígsins síðastliðinn vetur sem gekk svo vel að hann er nú tilbúinn fyrir sumarið. Stígurinn eykur til muna öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem ella þurfa að fara eftir Vatnsleysustrandarveginum, en sá vegur er bæði hlykkjóttur og þröngur.
Sveitarfélagið stefnir á að halda áfram í verkefnum sem þessum, bæði með því að halda áfram með þennan stíg í átt að Hafnarfirði sem tengir Voga og Innri-Njarðvík yfir Vogastapa. Smátt og smátt tekst því vonandi að koma á tengingunni alla leið frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að höfuðborgarsvæðinu. Þannig er hægt að koma allri reiðhjólaumferð af Reykjanesbrautinni sem er mikið auðvitað mikið öryggisatriði.