Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gönguleiðir opnar að gosstöðvum í dag

Hafið í huga að gönguleiðin er löng á ójöfnu undirlagi. Klæðið ykkur fyrir fjallgöngu, takið með nesti og drykki og njótið útsýnisins.
Mynd: Hörður Kristleifsson
Mynd: Hörður Kristleifsson

Allar gönguleiðir inn á svæðið frá Suðurstrandarvegi en ekki frá öðrum vegum eða vegaslóðum. Fjallið Keilir er inn á merktu hættusvæði og ekki opið almenningi.

Gönguleiðum inn á svæðið verður lokað kl. 18 í dag.

Á meðfylgjandi göngukorti sem hefur verið uppfært má greinilega sjá merkt hættusvæði. Hættusvæðið er bannsvæði samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur. Bannið tekur ekki til viðbragðsaðila og vísindamanna sem þurfa í vísindalegum tilgangi aðgang að svæðinu. Þá getur lögregla veitt fjölmiðlum sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki við öflun frétta og miðlun þeirra undanþágu frá banni.

Af öryggisástæðum er gönguleiðum frá Suðurstrandarvegi lokað daglega kl. 18 (fyrr eða seinna eftir atvikum, þegar opið er). Sú ákvörðun gildir á meðan gos stendur yfir við fjallið Litla Hrút.

Vigdísarvallavegi verður lokað samhliða lokun gönguleiða.

Gönguleiðir:

  • Leið upp að gosstöðvunum er það sem viðbragðsaðilar kalla Meradalaleið (E-blá). Ganga þarf um 18 km leið fram og til baka. Gönguferðin hentar því alls ekki öllum. Gangan fram og til baka tekur um 5 til 7 klukkustundir. Aðrar gönguleiðir samkvæmt korti eru jafnframt opnar.
  • Leið A er einnig opin en er erfiðari yfirferðar.
  • Göngumenn klæði sig eftir veðri, taki með sér nesti og gleymi ekki að hafa næga hleðslu á farsímum. Ekki er tryggt öryggi farsíma á svæðinu.
  • Þeir gangi að gosstöðvum sem treysta sér til þess, vel búnir og nestaðir. Fylgist með vindátt og fréttaflutningi.
  • Sjá gönguleiðir hér

Viðbragðsaðilar:

  • Lögreglumenn, landverðir og sjúkraflutningamenn eru á svæðinu.
  • Björgunarsveitarfólk sinnir útköllum en verða ekki almennt á svæðinu.
  • Þetta fyrirkomulag kallar á ábyrga hegðun göngufólks á svæðinu.

Öryggisupplýsingar:

Sem fyrr þá gengur ekki í öllum tilfellum vel að biðja fólk um að halda sig utan hættusvæðis. Við biðjum því fólk um að haga sér í samræmi við fyrirmæli lögreglu og björgunarsveita og fara ekki inn á merkt hættusvæði/bannsvæði.

  • Mikilvægt er að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega.
  • Lögregla varar fólk við að dvelja nærri gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir.
  • Lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar.
  • Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum.
  • Mælt er með því að fólk noti rykgrímur til að forðast mengun frá gróðureldum.
  • lögð áhersla á að ekki sé farið með börn á svæðið og að fólk með hjarta- eða lungnasjúkdóma gangi ekki að gosinu, eða þungaðar konur. Það er vegna hugsanlegrar gasmengunar en einnig vegna reyksins frá gróðureldum.
  • Fólk fer að gosstöðvunum á eigin ábyrgð.

Bílastæði:

  • Bílum skal lagt á merktum stæðum við Suðurstrandarveg en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.
  • Akstur utan vega er bannaður.

Vinsamlegast farið að fyrirmælum viðbragðsaðila.

Sjá jafnframt upplýsingar á:

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt framan af degi, gosmengun getur safnast upp nálægt gosstöðvunum. Gengur í norðan 3-8 m/s seint í dag og berst gosmengunin þá til suðurs.
Spá gerð: 31.07.2023 22:00. Gildir til: 01.08.2023 23:59.

Heimild: Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (1. ágúst 2023 @8.00 og Veðurstofa Íslands (20.júlí 2023). Næst uppfært milli kl. 8 og 9, 2. ágúst.