Gönguferð Grindavíkurbæjar og Bláa Lónsins annan í páskum
Á annan í páskum verður boðið upp á gönguferð með leiðsögn um stórbrotið umhverfi Bláa Lónsins. Gangan hefst kl. 11.00 við bílastæði Bláa lónsins og er áætlað að hún taki um 3 klukkustundir.
Hægt er að fara rúmlega hálfan hring og fá akstur til baka. Gangan er í boði Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar og enginn þátttökukostnaður er í gönguna.
Gengið verður m.a. um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól (gígnum sem hraunið kom úr á sögulegum tíma), farið með Skipstíg, fornri þjóðleið, haldið austur með norðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli. Þar er ætlunin m.a. að kíkja á þjófaslóðir og hin gömlu sel Grindvíkinga. Þá verður gengið um hið litskrúðuga lónssvæði að lækningalindinni og endað í heilsulind.
Þátttakendum í göngunni sem hafa hug á að fara í Bláa Lónið að göngu lokinni er vinsamlegast bent á að ganga tímanlega frá bókun á heimasíðu Bláa Lónsins.
Góður skófatnaður er æskilegur og gott er að taka með sér smá nesti.
Allir þátttakendur eru á eigin ábyrgð. Sigrún Franklín verður leiðsögumaður í göngu.