Fyrstur til að hlaupa 100 mílur á Íslandi - einstakt hlaup á Reykjanesi
Gunnar Viðar Gunnarsson varð fyrstur til þess að ljúka 100 mílna hlaupi hérlendis um síðastliðna helgi þegar hann lauk America - Europe ultra hlaupinu sem fram fór að öllu leyti á Reykjanesi. Leiðin er samtals 165,2 km og lauk Gunnar afrekinu á 26 klst, 37 mínútum og 28 sekúndum.
„Útsýnið og landslagið er einstakt á þessari hlaupaleið, þetta var alveg geggjað. Maður gleymir sér á svona löngum hlaupum og þetta er bara gleði alla leið ef hausinn er rétt skrúfaður á,“ sagði hlauparinn sem glímdi við mótvind í 130 km og eymsli í hásin síðustu 40 km. „Maður lætur það ekki á sig fá og ég hugsaði ekki í eina sekúndu um að hætta.“ Fyrirvarinn var stuttur en Gunnar hafði þjálfað sig undir slíka vegalengd en það hlaup átti að fara fram í Noregi en var frestað vegna Covid. Gunnar tók endanlega ákvörðun um að taka þátt á fimmtudeginum og hann lagði svo af stað að morgni föstudags. Það kom ekki að sök og einstakt afrek Gunnars staðreynd en hann hljóp í einni beit með stuttu matarstoppi í Grindavík þar sem hann gæddi sér á frönskum og kokteilsósu.
Gunnar hefur ekki mikla reynslu af hlaupum á Reykjanesi en hann sagði að einstakt hafi verið að blanda saman náttúrunni og bæjarfélögunum öllum á hlaupaleiðinni. „Svæðið hefur allt upp á að bjóða til þess að halda svona hlaup, það er ekkert sem angrar mann nema blessuð krían,“ sagði hlauparinn öflugi að lokum.
Þetta var í fyrsta sinn sem America - Europe hlaupið fer fram en stefnt er að því að gera það að árlegum viðburði á Reykjanesi. Hlaupið er á utanvegastígum, fjallvegum, ströndum og hrauni. Hlauparar upplifa sólsetur og sólarupprás í lengstu vegalengdunum og allir skokka milli heimsálfa yfir brúna sem liggur á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku. Vegalengdir eru 10 km, 30 km, 50 km, 100 km og 160 km (100 mílur).