Fjölmenn Mannamót og fróðleg Ferðaþjónustuvika
Metfjöldi mætti á Mannamót í Kórnum í Kópavogi, sem er stærsti viðburður íslenskrar ferðaþjónustu. Um 1.200 manns frá öllum landshlutum sóttu viðburðinn, ýmist til að kynna starfsemi sína eða sem gestir. Líkt og áður átti Reykjanes sína fulltrúa á Mannamótum, þar sem saman voru komnir reynslumiklir aðilar í ferðaþjónustu og þeir sem eru að hefja feril sinn í greininni. Samhliða Mannamótum var Ferðaþjónustuvikan haldin dagana 14.–16. janúar, þar sem áhersla var lögð á að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku innan greinarinnar. Dagskrá vikunnar var bæði fræðandi og skemmtileg og fór fram undir merkjum Ferðaþjónustuvikunnar.
Í tilefni Mannamóta tóku Advania á Íslandi og Markaðsstofur landshlutanna höndum saman og stóðu fyrir beinni útsendingu frá Kórnum. Þar var rætt við ýmsa aðila í ferðaþjónustu auk annarra góðra gesta.
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðakaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna. Ráðstefnan er mikilvægur kynningarvettvangur fyrir ferðaþjónustuna á landsbyggðinni og býður upp á tækifæri til að efla tengsl milli fagaðila í greininni.
Aðstandendur Ferðaþjónustuvikunnar eru Markaðsstofur landshlutanna, Íslenski ferðaklasinn, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Íslandsstofa.