Eldgos á Reykjanesi - upplýsingar
Eldgos eru alla jafna mjög dramatísk og áhrifamikil, og nýja gosið í Meradölum sem hófst í gær, 3. ágúst, er þar engin undantekning.
Talsvert af fólki var við eldstöðvarnar í gær og fjölgaði ferðamönnum upp úr miðnætti til að sjá það í ljósaskiptunum. Fylgjast má með heimsóknum á svæðið í gegnum talning ferðamanna sem birt er daglega (í lok dags) á Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Mikilvægt er að hafa í huga að eldgosið er ekki eins aðgengilegt og fyrra gos var. Svæðið nú er norðan við umbrotin sem voru í Geldingadal og töluvert lengra í göngu, um svæði sem er grýtt og erfitt yfirferðar.
Fyrir gesti sem vilja heimsækja svæðið þá tók Björgunarsveitin Þorbjörn saman nokkra punkta sem vert er að hafa í huga:
- Besta leiðin að gosinu fer eftir vindátt og veðri hverju sinni, fylgist því vel með tilmælum Lögreglu og viðbragðsaðila.
- Verið vel útbúin. Mikilvægt að vera vel klædd, með nesti, góða skó, höfuðljós og fullhlaðinn síma.
- Gasmengun er á svæðinu og gæti safnast í lægðum. Nauðsynlegt er að forðast reykinn af gosinu. Kynnið ykkur leiðbeiningar vegna gasmengunar á heimsíðu almannavarna https://www.almannavarnir.is/
- Gamla hraunið er ennþá heitt og stórhættulegt yfirferðar. Vinsamlegast gangið ekki á hrauninu.
- Gangan að nýja hrauninu og gígnum er að lágmarki 7 km aðra leið og hækkunin er um 300m. Það þýðir að heildar gönguferðin getur verið rúmir 14 kílómetrar um nokkuð torfært svæði og eru mjög brattar brekkur í nágrenni gígsins. Gera má ráð fyrir að slík ganga taki 5 til 6 klukkustundir hið minnsta.
- Gangan að útsýnispalli þar sem gígurinn sést er aðeins styttri eða rétt rúmir 5 km aðra leið.
- Skiljið bílinn ykkar eftir á bílastæði en ekki í vegköntum. Það er nóg af stæðum fyrir alla.
- Best er að leggja bílum á bílastæðið við gönguleið A og ganga svo eftir A leiðinni alla leið upp á Fagradalsfjall. Þegar komið er upp á fjallið er haldið eftir sléttunni til norðvesturs þar til gosið sést.
- Viðbragðsaðilar eru á svæðinu. Sýnum hvert öðru tillitsemi og förum eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar eru út.
- Lögregla lokar svæðum gerist þess þörf.
- Akstur utan vega er bannaður.
Verum til fyrirmyndar, njótum útiverunnar og komum heil heim.
Við höfum tekið saman upplýsingar um svæðið, kort, gönguleiðir, bílastæði og fleira. Skoðið upplýsingarnar vel áður en haldið er af stað. Lestu meira...