Eldgosi lokið á Reykjanesi
Síðast uppfært 10. desember 2024 – næsta uppfærsla 17. desember 2024.
Staða eldgossins:
Eldgos sem hófst á milli Stóra – Skógfells og Sýlingarfells kl. 23:14 miðvikudaginn 20. nóvember 2024 er nú lokið. Gosið var hið sjöunda í röð eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember á síðasta ári. Landris er hafið á ný á Svartsengissvæðinu. Á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir undir Svartsengi eru auknar líkur á eldgosi.
- Breyting frá síðustu uppfærslu: Elgosi við Stóra-Skógfell er lokið.
Áhættustig Almannavarna:
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 9. desember 2024 að fara af hættustigi á óvissustig þar sem eldgosinu er lokið. Helstu breytingar á tilfærslu á áhættustigi felst í starfi viðbragðsaðila og almannavarna, og ákvörðunar um opnun/lokun svæða.
- Breyting frá síðustu uppfærslu: Í dag er unnið á óvissustigi
Sjá nánari upplýsingar um áhættustig almannavarna í flettistikunni hér fyrir neðan:
Áhættustig Almannavarna
Við áhættugreiningar eru gjarnan notuð áhættufylki þar sem áhættustigum er raðað upp eftir líkum (e. probability) og afleiðingum (e. consequences). Á y-ás eru líkur tilgreindar og x-ás eru afleiðingar tilgreindar. Áhættustig raðast í fylkið eftir alvarleika.
Á Íslandi eru þrjú áhættustig notuð við almannavarnatilfellum: óvissustig, hættustig og neyðarstig (e.Level of risk).
Sjá nánari skilgreiningar á vef Almannavarna.
Stig alvarleika
Viðbragðsaðilar hafa komið sér saman um 3 háskastig almannavarna sem taka til allra neyðaraðgerða. Almannavarnastig eru flokkuð eftir alvarleika, umfangi viðbúnaðar og þörf á forgangshraða viðbragðsaðila.
Hættumat:
Veðurstofan uppfærir hættumat reglulega á meðan á gosi stendur sem unnið er útfrá til að meta opnanir og lokanir á svæðinu. Hættumat sem Veðurstofan birti 10. desember má finna hér og gildir það til 17. desember að öllu óbreyttu.
- Hættumatið kallar ekki á breytingar á opnunum eða lokunum frá því sem verið hefur. Lestu áfram um aðgengi á svæðinu hér fyrir neðan.
Aðgengi: (engar breytingar frá síðustu uppfærslu)
- Grindavík og Svartsengi voru rýmd í upphafi gossins.
- Svartsengi er enn lokað í dag nema fyrir viðbragðsaðila, vísindamenn og þá sem vinna innan svæðisins. Bláa lónið og Northern lights Inn eru því lokuð.
- Grindavík er opin fyrir almenna umferð. Opið er um Nesveg og Suðurstrandarveg, sjá kort hér fyrir neðan.
- Sprungur innan Grindavíkur hafa verið girtar af, en mikilvægt er að fara um svæðið að virðingu og varkárni og fylgi leiðbeiningum.
- Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Mikilvægt er að gestir haldi sig við merktar gönguleiðir og götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
- Gosstöðvar – Sundhjúksgígar: Gosstöðvarnar sjálfar og hraunið sem runnið hefur er ekki aðgengilegt fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður.
- Á meðan á gosi stendur er möguleiki á gasmengun frá gosinu. Sjá leiðbeiningar um loftgæði.
- Gosstöðvar – Fagradalsfjall: Opið er inná allar gönguleiðir við gosstöðvarnar á Fagradalsfjalli.
- Möguleiki er á lokunum ef mikillar gasmengunar gætir á svæðinu.
Aðrir áhugaverðir staðir:
- Opið er um Nesveg inn í Grindavík, sem þýðir að aðgengi er opið að m.a. Brú milli heimsálfa, Gunnuhver, Reykjanesvita, Brimkatli og Grindavík.
- Opið er um Suðurstrandarveg inn í Grindavík, sem þýðir að aðgengi er opið m.a. að Fagradalsfjalli, Selatöngum, Húsatóftum ofl.
Frekari upplýsingar um aðgengi að gossvæðinu:
Svæðið sunnan Voga og Reykjanesbrautar að gosstöðvum við Sundhnúksgíga er gamalt æfingasvæði hersins. Leitað hefur verið að sprengjum á svæðinu í gegnum tíðina og er enn talið að það sé eitthvað mengað af virkum sem óvirkum sprengjum. Svæðið hefur verið vinsælt útivistarsvæði síðustu áratugi og hafa heimamenn og útivistarfólk sem sótt hefur svæðið vitað af þessari hættu. En vakin er athygli á því með skiltum við upphaf gönguleiða.
Nú þegar aukinn áhugi er á að komast nær gosinu og inn á þetta svæði er rétt að vekja athygli á aðstæðum og mikilvægt að allir sem fara inn á svæðið að halda sig við merkta gönguslóða. Það eru tilmæli lögreglustjóra til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessu á framfæri við gesti.
Þessar sprengjur geta valdið tjóni ef þær springa, en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif. Mikilvægt er að forðast að meðhöndla aðskotahluti á þessum leiðum og hafa samband við 112 ef eitthvað finnst. Það er aðeins fyrir sprengjusérfræðinga að meta ástand og gerð þessara sprengna. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu né stærð þessa svæðis en Landhelgisgæsla Íslands hefur dregið upp neðangreint kort til upplýsingar.
- Gosstöðvarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður.
- Mikilvægt er að halda sig við merktar gönguleiðir og slóða.
- Mengunar gæti gætt frá gosi og gróðureldum.
- Loftgæði nær gosstöðvum eru slæm.
- Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða.
- Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut.
- Eldgos er í gangi og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara. Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.
Loftgæði og leiðbeiningar:
Þeir sem eiga erindi inn á Reykjanesið og eru viðkvæmir fyrir mögulegu gasi frá gosstöðvum er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni: https://loftgaedi.is/ Þar eru jafnframt góðar leiðbeiningar til að bregðast við mögulegri gasmengun.
Hlekkir á ítarefni:
- Veðurstofan: Veðurstofan vinnur með Almannavörnum og viðbragðsaðilum við að vakta atburðina og uppfærir upplýsingar um gosin reglulega. Þar má finna upplýsingar um gerð og umfang gosanna, spár um gasmengun og fleira. Þá gefur hún út hættumat vegna gossins sem nýtt er til að uppfæra opnanir og lokanir á svæðinu.
- Samgöngustofa: Birtir reglulega tilkynningar um leyfi og reglur til drónaflugs.
- Vegagerðin: Vegagerðin birtir upplýsingar um opnanir og lokanir vega á Reykjanesi vegna atburðanna. Hægt er að skoða uppfært kort frá þeim hér.
- Safetravel: Birtir upplýsingar um aðstæður og hættur umhverfis landið sem geta haft áhrif á ferðalagið og miða að öryggi ferðamanna.
- Ferðamálastofa: Birtir reglulega stöðuskýrslur um atburðina og veitir sérstakar upplýsingar til ferðaþjónustuaðila.
- VisitIceland: Á vef Visit Iceland eru birtar upplýsingar um stöðu atburðanna á ensku og fréttir um aðgengi til og frá landinu á meðan á þeim stendur.
- Visit Reykjanes: Á vef Visit Reykjanes birtast upplýsingar um stöðu gossins, lokunarpósta og aðgengi innan landshlutans á meðan á gosi stendur og milli atburða.
- Vefmyndavélar frá gosstöðvunum: ruv.is - mbl.is - visir.is