Bláa Lónið besta heita laug heims
Bláa lónið er fallegasta heita laugin að mati rannsóknafyrirtækisins QS Supplies. Bláa lónið fékk einkunnina 6,79 af 10 mögulegum en þar var meðal annars litið til gæða lauganna, aðstöðunnar í kring og veðráttu.
Í öðru sæti urðu Travertine-laugarnar í Kaliforníu í Bandaríkjunum og í þriðja sæti Pamukkale-laugarnar í Tyrklandi. Í rannsókninni kom einnig fram að Bláa lónið var vinsælast á Instagram og hafði verið merkt í yfir 100 þúsund myndir.
Inn í heildareinkunnina var einnig tekið hversu oft var leitað að stöðunum á veraldarvefnum að meðaltali á hverju ári. Þar var oftast leitað að Bláa lóninu en tvær milljónir leita að því á netinu á hverju ári.
Það sem dró einkunn Bláa lónsins niður var meðaltal rigningardaga, en þeir eru að meðaltali 152 á ári.