400 þátttakendur sóttu ráðstefnu á Reykjanesi
Yfirskrift ráðstefnunnar var „Thriving Amidst Nature‘s Tests” sem gæti útlagst sem seigla svæða við að bregðast við áskorunum nátturunnar, með vísun í þær áskoranir sem samfélagið í Reykjanes jarðvangi hefur farið í gegnum á síðustu þremur árum, sérstaklega varðandi jarðhræringar og tíð eldgos. Við eigum það sameiginlegt með mörgum öðrum jarðvöngum að þurfa að bregðast við náttúruhamförum og reyna að vinna að uppbyggingu samfélaga, styrkja innviði og búa til tækifæri til framtíðarþróunar svæðanna, í takti við þær áskoranir sem náttúran færir okkur.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra opnaði ráðstefnuna, ásamt því sem hún tilkynnti gestum um fjárhagslegan stuðning ríkisins til jarðvanganna tveggja á Íslandi, Kötlu og Reykjaness, upp á tíu milljónir króna árlega næstu tvö árin.
Að loknu erindi ráðherra, ávörpuðu formaður evrópska netverksins og fulltrúi UNESCO gesti. Í framhaldinu bauð stjórnarformaður Reykjanes jarðvangs, Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík, gesti velkomna á svæðið um leið og hann gaf þeim innsýn í þær áskoranir sem samfélagið hefur þurft að takast á við á síðustu þremur árum. Þá var sýnt myndband sem Almannavarnir settu saman fyrir Grindavíkurbæ um aðstæðurnar í bænum við rýmingu íbúa í aðdraganda eldgosanna við Sýlingarfell. Matthew Roberts, forstöðumaður rannsóknar- og þjónustusviðs Veðurstofunnar hélt jafnframt kynningu á opnunninni þar sem hann fór yfir jarðhræringarnar frá sjónarhorni vísindasamfélagsins. Ráðstefnugestir voru á einu máli um að þessi nálgun og yfirferð á viðkvæmu umfjöllunarefni var til þess að þeir fengu mun betri skilning á stöðu verkefna innan jarðvangsins, en umfjöllun erlendra fjölmiðla hafa náð að endurspegla. Það var því við hæfi að í kynnisferðum í lok ráðstefnunnar fengu allir þátttakendur tækifæri til að heimsækja Kvikuna í Grindavík og fá þar innsýn í aðstæður frá heimafólki. Um 300 ráðstefnugestir tóku þátt í þessum kynnisferðum um Reykjanesið, þar sem þeir gátu meðal annars fræðst um jarðhræringar, menningu svæðisins, ferðaþjónustu,auðlindir svæðisins og nýtingu þeirra, útikennslu og STEM fræðslu. Með ferðunum gafst þvígestum tækifæri til að kynnast fjölbreyttum verkefnum og nýsköpun, heimsækja menningarstofnanir, ferðaþjónustufyrirtæki, rannsóknarstofnanir og grunnskóla, ásamt því að ganga um Reykjanesið undir leiðsögn sérfræðinga.
Megin markmið ráðstefnu sem þessarar er að efla tengslanet jarðvanganna bæði innan netverksins og til hagaðila, að þátttakendur geti deilt reynslu sinni og lært af öðrum um leið og það kynnist starfsemi jarðvanga um allan heim. Fyrir aðstandendur Reykjanes jarðvangs var markmiðið með ráðstefnunni ekki síður að auka þekkingu innan netverksins á jarðvanginum og að nýta tækifærið til að kynna starfsemi jarðvanga heimafyrir, meðal íbúa, fyrirtækja og stofnana á Reykjanesinu sem og á landinu öllu.
Einn af lykil þáttum í verkefninu var að geta haldið viðburðinn í heimabyggð, innan Reykjanes jarðvangs, og styrkja þannig viðskipti og þjónustu í nærsamfélaginu. Eins og fram hefur komið, voru um 400 þátttakendur á ráðstefnunni, en með þessum viðburði má reikna með að sambærilegur fjöldi hafi komið að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar sem og við þjónustu við ráðstefnugestina með einum eða öðrum hætti. Lagt var upp með það að hálfu Reykjanes jarðvangs að öll þjónusta og aðföng fyrir ráðstefnuna kæmi af svæðinu, auk þess sem kappkostað var við að kynna framleiðslu og þjónustu af svæðinu á ráðstefnunni, í ráðstefnugögnum og á ráðstefnusvæðinu. Þannig komu allar veitingar frá aðilum innan svæðisins, hönnun og undirbúningur fór fram innan svæðisins, auk þess sem akstur þátttakenda, tónlistaratriði og fleira kom frá heimafólki.
Umhverfisstefna viðburðarins var að vera plastlaus, versla í heimabyggð og lágmarka allan akstur og flutning. Þá var kappkostað við að halda prentun í lágmarki og bjóða upp á endurvinnslu á staðnum. Við náum seint að halda kolefnishlutlausar ráðstefnur á Íslandi vegna legu landsins, en aðstandendur ráðstefnunnar ákváðu að hluti ráðstefnugjaldsins myndi renna til kolefnisjöfnunar, og um leið styrkja björgunarsveitir svæðisins með því að kaupa Rótarskot fyrir 1,1 milljónir króna. Styrkur til björgunarsveitanna var afhentur á opnun viðburðarins.
Það er mat þeirra sem sóttu ráðstefnuna að hún hafi tekist með eindæmum vel og var umtalað að hún hafi verið með betri alþjóðlegu ráðstefna sem evrópska jarðvangs netverkið hefur komið að hingað til. Mega því allir sem komu að verkefninu vera stoltir af sínu framlagi og þeim ávinningum sem hún skilaði bæði í nærsamfélaginu og út fyrir landsteinana.