Byggðasafn Reykjanesbæjar – Þar sem fortíðin speglast í nútímanum
Í Byggðasafni Reykjanesbæjar gefst tækifæri til að kynnast sögu svæðisins og sérkennum þess. Áhersla er lögð á að skoða þá þætti sem hafa mótað íbúana og umhverfi þeirra og setja í samhengi við Reykjanesbæ nútímans.
Sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar eru í Bryggjuhúsinu í Duus safnahúsum, Duusgötu 2-8 í Reykjanesbæ. Opnunatími: Lokað er á mánudögum. Opið er þriðjudaga til sunnudaga frá kl: 12:00-17:00.
Yfirstandandi sýningar:
Eins manns gull er annars rusl
Á sýningunni eru smáhlutir sem hafa verið framleiddir með ákveðið notagildi í huga. Þegar þeir hafa lokið hlutverki sínu enda þeir oftar en ekki í ruslinu. Hér gefst tækifæri til að rifja upp liðna tíð og virða fyrir sér hvernig myndskreytingar og vörumerki hafa breyst.
Ásjóna
Sýningin byggist upp af myndum sem hafa borist safninu í upprunalegum römmum. Myndir sem fá þann sess að vera settar í ramma og hafðar til sýnis hafa yfirleitt ákveðið gildi í augum eigandans. Væntumþykja, stolt eða söknuður eru meðal þeirra tilfinninga sem eru tjáð með þessum hætti.
Hér sit ég og sauma
Fatasaumur var eitt af verkefnum kvenna á árum áður og var saumaskapur mikilsmetið handverk. Tilkoma saumavélarinnar olli byltingu og sagt var að saumavél gæti sparað eina vinnukonu. Saumavélin varð í sumum tilfellum að atvinnutæki sem gerði konum kleift að sjá sér farborða.
Stekkjarkot í Innri-Njarðvík
Stekkjarkot er endurgert torfhús, dæmigert fyrir þau fjölmörgu kot sem einkenndu búsetu á svæðinu á 19. öld. Stekkjarkot var þurrabúð sem þýddi að landið var leigt og þar mátti ekki halda skepnur. Íbúar þurftu því að framfleyta sér með sjósókn. Búið var í Stekkjarkoti á 1885-1887 og svo aftur 1917-1923.
Stekkjarkot er opið eftir samkomulagi.