Sossa Björnsdóttir er fædd 9. febrúar árið 1954 og uppalin í Keflavík. Hún lærði myndlist í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, fór í framhaldsnám í listaháskóla í Kaupmannahöfn og lauk svo mastersgráðu við listaháskóla í Boston árið 1993.
Hún hefur í áraraðir unnið við list sína og haldið sýningar víða um heim s.s. á alþjóðlega tvíæringnum í Peking í Kína, Koppelman Gallery í Massachusetts, Galleri Sct. Gertrud í Kaupmannahöfn, Mac Gowan Fine Art í Bandaríkjunum, Aalborg Art Association í Danmörku, Galeria de Arte í Portúgal, við listasafn Norrænu ráðherranefndinar, Tvíæringnum í Flórens, Art Apart í Singapore og í Gallerí Fold í Reykjavík.
Hún hefur sýnt í Listasafni Reykjanesbæjar, bæði ein og með öðrum, hún hefur haldið sýningar á vinnustofu sinni tvisvar á hverju ári, á Ljósanótt og fyrir jólin og einnig tekið þátt í alls kyns menningaverkefnum í bæjarfélaginu m.a. tónleikaröðinni Heimatónleikar og List án landamæra. Þá tekur hún reglulega á móti fjölda hópa á vinnustofuna sína í Reykjanesbæ þar sem hún sýnir verkin sín og segir frá starfi sínu.
Sossa hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. var hún útnefnd sem Listamaður Reykjanesbæjar árið 1997 og hún fékk Fullbright styrk til að vinna við og kenna myndlist í Seattle árið 2013. Þá er hlaut hún Súluna - Menningarverðlaun Reykjanesbæjar - árið 2018.