Regnbogi
Fyrir framan flugstöðina stendur Regnboginn eftir Rúrí. Verkið setur mikinn svip á umhverfið þar sem regnboginn rís úr jörðinni í opnu umhverfi og teygir sig upp til himins. Verkið er unnið úr ryðfríum stálrörum og steindu gleri. Litir regnbogans eru myndaðir með 313 gulum, rauðum, grænum og bláum steindum glereiningum. Verkið rís upp úr hellulögn úr íslensku grágrýti og teygir sig 24 metra upp til himins.
Um verkið segir Rúrí: „Regnboginn er ófullgerður – Ég ímynda mér að einhvern tíma síðar meir, eftir svo sem eitt hundrað eða þúsund ár verði þráðurinn tekinn upp aftur þar sem frá var horfið og smíðinni haldið áfram. Verkið myndi teygja sig hærra og hærra upp í himininn, síðan niður á við aftur. Þar til að lokum að endinn snerti jörðu, og regnboginn væri fullgerður …“
Regnbogi var annað tveggja verka sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um listaverk við Flugstöð Leifs Eiríkssonar stuttu eftir að hún var vígð, 1990.
Vefsíða Rúríar: https://www.ruri.is