Eldvörp
Eldvörp eru um tíu kílómetra löng gígaröð í skástígum hlutum, ásamt 20 ferkílómetra hrauni sem flæddi í gos- og rekhrinunni Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240. Við miðbik gígaraðarinnar er jarðhiti og stök rannsóknarborhola. Áður fyrr bökuðu grindvískar konur brauð í Eldvörpum og liggur svokallaður Brauðstígur þangað frá Grindavík. Mannvistarleifar má finna hér og þar í hrauninu.