Brimketill
Brimketill er sérkennileg laug í sjávarborðinu vestast í Staðarbergi stutt frá Grindavík.
Á sólríkum degi minnir grjótmyndunin helst á heitan pott. Brimketill og katlarnir í nágrenni hans urðu til vegna stöðugs núnings brims við hraunklettana. Þar hefur ytra álag smátt og smátt mótað bolla og katla í basalthraunið.
Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum í nágrenni Brimketils má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þessi ferill brýtur bergið smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota sem aldan skellir á sjávarkletta og laust grjót, og auk þess frostveðrun þegar vatn í glufum þenst út við að harðna, og jafnvel sandblástur.
Hraunið umhverfis Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.
Þjóðsaga ein segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.
Á dögunum var lokið við að byggja áfanga 2 við Brimketil, verkefni sem hófst árið 2015 er nú lokið. Nýja viðbótin við útsýnispallinn veitir ferðamönnum betra útsýni yfir sjálfa Oddnýjarlaug sem einnig nefnist Brimketill. Samhliða áfanga 2 var unnið að því að bæta aðgengi og öryggi umtalsvert sem og að gert var við skemmdir sem urðu á pallinum eftir veðurofsa vetrarins. Verkið var styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og verkefnastjórn var í höndum Reykjanes Geopark og Grindavíkurbæjar. Landmótun og Efla sáu um hönnun og ÍAV smíðaði.
Öryggisupplýsingar!
- Ekkert eftirlit er á svæðinu.
- Gestir eru a eigin ábyrgð.
- Öldurnar geta verið ófyrirsjánlegar og óvæntar.
- Sjávarstraumar eru einstaklega sterkir.
- Sterkar vindhviður geta verið hættulegar og ófyrirsjáanlegar.
- Ef þú ert á ferð með börn, skildu þau aldrei við þig.
- Lífshættulegt getur verið að fara í sjóinn.
Ferðastu um Ísland á öruggan máta. SafeTravel.is