Stafnes
Höfuðból að fornu. Þar var um aldir mikið útræði og fjölbýli á staðnum. Konungútgerð hófst þar um miðja 16. öld og stóð til 1769. Voru landsetar af konungsjörðum suðvestanlands skyldurgir til að róa á árabátum þaðan fyrir harla lítil laun. Á 17. og 18. öld var Stafnes fjölmennasta verstöð á Suðurnesjum. Básendar eru skammt sunnan við Stafnes. Nokkru sunnar er Þórshöfn lítið notuð enda Básendar skammt frá. Mörg skip hafa farist á Stafnesskerjum. Árið 1928 fórst þar togarinn Jón forseti. Drukknuðu 15 skipverjar en 10 varð bjargað, Slys þetta varð ásamt öðrum íkveikjan að stofnun Slysavarnarfélags Íslands. Töluverð selveiði var á Stafnesi fyrr á árum.
Stafnesviti var byggður árið 1925 á Stafnesi, milli Hafna og Sandgerðis. Hann er 8 m hár, steinsteyptur ferstrendur turn, 3x3 m að stærð sem stendur á efnismiklum sökkli. Anddyri var byggt við hann árið 1932. Á vitanum er 3 m hátt norskt ljóshús úr járnsteypu. Þrír krosspóstagluggar eru á vitanum, áður fyrr með sex rúðum en fjórum síðar. Efst á turninum er stölluð þakbrún með einföldu handriði úr járni og tréslám sem sett var upp árið 1981. Vitinn var hvítur í upphafi og um hann ofarlega var málað rautt band, en árið 1962 var vitinn málaðir gulur.
View