Að túlka hið ósýnilega: vandinn við málaralistina. Málþing um myndlist Bjarna Sigurbjörnssonar.
Verið velkomin á málþing tileinkað myndlist og aðferðum Bjarna Sigurbjörnssonar, sunnudaginn 24. nóvember, klukkan 14.
Hlynur Helgasson, dósent í listfræði við Háskóla Íslands, er málshefjandi og aðrir í pallborði eru Sigrún Hrólfsdóttir, myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi fræðimaður, og Jón Proppé, sjálfstætt starfandi fræðimaður.
Öll velkomin og ókeypis aðgangur.
Ég stend fyrir framan málverkið, skoða hvað gerst hefur eftir atferlið. Skoða eigin hreyfingar sem ég lagði til málverksins, reyni að finna hvert leiðin liggur. Í þessari vegferð er sem tíminn falli saman, hér á sér ekki stað upphleðsla laga sem mynda að lokum yfirborð, lokað yfirborð, heldur er fyrsta pensilhreyfingin jafn virk og sú síðasta þegar málverkið er að lokum kvatt. Vantar ekki meiri þyngd hér, léttleika þar? Fá fallið á flug, þungann til að svífa, halda spennunni sem strokan krefst, hún þarf að vera passlega stýrð, pínu kæruleysi, stundum ákefð, stundum er hún letileg svo ekki verði þvingun í eðlislægu hrynfalli handarinnar, sem er jú aðalverkfærið. Heilinn á bak og burt, geymdur í kæli gluggaumslaga sem bíða síns tíma en eru eilíflega að trufla lífrænan líðandann í sjálfsprottnu sköpunarverkinu.
Höfundur Bjarni Sigurbjörnsson.