Suðurnesjabær
Þann 10. júní 2018 varð sveitarfélagið Suðurnesjabær til eftir sameiningu Sandgerðis og Garðs. Kosið var um þrjár tillögur og voru niðurstöður þær að Suðurnesjabær fékk 75,3% atkvæða, Sveitarfélagið Miðgarðar hlaut 17,1% atkvæða og Heiðarbyggð 6%.
Samanlagður íbúafjöldi Suðurnesjabæjar var 3.588 þann 1. janúar 2020 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Það gerir sveitarfélagið annað stærsta á Suðurnesjum á eftir Reykjanesbæ.
Sandgerði:
Sandgerðisbær (áður Miðneshreppur) er sveitarfélag á utanverðum Reykjanesskaga. Nær hann yfir alla vesturströnd Miðness (Rosmhvalaness), allt út að Garðskaga.
Miðneshreppur var stofnaður árið 1886 þegar Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt eftir endilöngu nesinu. Hélt hinn hlutinn gamla nafninu áfram en hann náði yfir byggðirnar innan megin á nesinu: Garð, Leiru og Keflavík. Miðneshreppur fékk kaupstaðarréttindi 3. desember 1990 og nefndist upp frá því Sandgerðisbær.
Íbúar í Sandgerði eru rúmlega 1700 og hefur verið nokkur fjölgun síðustu áratugi. Sjávarútvegur og fiskvinnsla eru helstu atvinnuvegir, einnig iðnaður, verslun og þjónusta í frekar smáum stíl. Allgóð höfn er í Sandgerði og hafa viðamiklar hafnarframkvæmdir átt sér þar stað á seinni hluta 20. aldar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar er innan bæjarmarka Sandgerðis.
Sandgerði var upphaflega útvegsjörð í betra lagi og bjuggu þar góðbændur, sem aðallega höfðu fiskinn í sjónum að bústofni. Eins og nafnið gefur til kynna er jarðvegur þarna mjög sendinn og ekki vel fallinn til ræktunar. Sandurinn var að miklu leyti heftur með umfangsmikilli ræktun melgresis og hleðslu mikils sjóvarnargarðs á fyrri hluta 20. aldar.
Garður:
Garðurinn er frábær staður til að njóta útivistar hvort sem um er að ræða gönguferðir, berjatýnslu í móunum, golf, sund eða nestisferð í skrúðgarðinn. Skrúðgarðurinn Bræðraborg við Garðbraut er fallegur og litríkur og sannkallaður ævintýrastaður fyrir börn þar sem felustaðir og fjársjóðir leynast í hverju horni. Garðskagi er sannkölluð náttúruperla en þar er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla. Útsýnið frá Garðskaga er einstakt og fuglalífið sérstaklega fjölbreytt.