Valahnúkur
Athugið: Frá árinu 2016 hafa verið að myndast sprungur við jaðar Valahnúks og aðgengi að honum takmarkað. Auk þess hefur verið aukin jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaganum undanfarnar vikur sem hafa valdið því að frekari sprungur hafa myndast eða opnast á nokkrum stöðum á svæðinu, meðal annars á og við Valahnúk. Við hvetjum gesti til að sýna aðgát og virða merkingar á svæðinu. Það er sérstaklega mikilvægt að halda sig á merktum gönguleiðum og stígum, og forðast að ganga of nálægt jarðrimum eða sprungum sem gætu hafa myndast nýverið.
Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.
Móbergstúff
Sambland af hraunmolum og harðnaðri gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.
Bólstrabrotaberg
Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstrabrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallaða bólstrabrotaberg.
Bólstraberg
Bólstraberg er ein algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennilegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum. Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentímetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.