Reykjanesfólkvangur
Stórt friðlýst svæði tilvalið til útivistar og náttúruskoðunar.
Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 7 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar. Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.