Örnefnið Fagradalshraun varð fyrir valinu
Í lok mars óskaði Grindavíkurbær eftir tillögum frá almenningi að heitum á nýu náttúrufyrirbæri innan sveitarfélagsins. Alls bárust 339 hugmyndir að heiti á hraunið. Bæjarstjórn samþykkti örnefnið Fagradalshraun á fundi sínum þann 25. maí og vísaði örnefninu til staðfestingar mennta- og menningarmálaráðherra með vísan til laga nr. 22/2015.
Forliðurinn vísar til Fagradalsfjalls sem dregur nafn sitt af dal, vestan í fjallinu. Fagradalsfjall var og er eitt þekktasta örnefnið í nágrenni hraunsins. Þá vísar forliðurinn einnig til Fagradalsfjallskerfisins, eins af nokkrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga en hraunið rennur úr Fagradalsfjallskerfinu.